
Niðurstöður könnunar um viðhorf bænda til greiðslumarkskerfis
27.03.2017
Stjórn LK lét nýlega framkvæma skoðanakönnun um viðhorf bænda til greiðslumarkskerfis og framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu. Könnunin var send út um miðjan marsmánuð 2017 á 621 netfang mjólkurframleiðenda og stóð í rúma viku. Svör bárust frá 387 þátttakendum sem öll voru notuð í útreikningum. Svarhlutfallið var 62,3%. Niðurstöður könnunarinnar voru stuttlega kynntar á aðalfundi LK um síðastliðna helgi og má sjá þær í heild sinni hér að neðan. Einnig var boðið upp á opnar spurningar þar sem þátttakendur gátu skýrt svör sín betur eða komið með athugasemdir. Verða þau svör nýtt áfram sem vinnugögn.
Könnunin var gerð til að kanna betur hver vilji kúabænda um land allt sé varðandi framleiðslustýringu og greiðslumark til framtíðar. Árið 2019 mun fara fram atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðends um hvort greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslu skuli afnumið frá og með 1. janúar 2021. Það er mikilvægt að LK sé undirbúið undir hvora niðurstöðuna sem er og því var einnig samþykkt á aðalfundi að ráðast í stefnumörkunarvinnu í mjólkurframleiðslunni til næstu 10 ára, byggða á stefnumörkun sem unnin var árið 2011 og hugsuð var til 2021. Óháð niðurstöðu kosninganna 2019 er mikilvægt að greinin undirbúi sig í tíma, stillt verði upp þeim ólíku sviðsmyndum sem upp geta komið og unnin stefnumörkun útfrá þeim. Tekið skal fram að enn eru 2 ár fram að atkvæðagreiðslu og er það stefna LK að mæla viðhorf bænda áfram fram að því.
Spurt var:
- Hvert er viðhorf þitt til greiðslumarkskerfis í mjólkurframleiðslu eins og það er í dag?
2. Við endurskoðun 2019 mun fara fram atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um hvort greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Hver vilt þú helst að verði niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu?
3. Ef breytingar verða á búvörusamningum við endurskoðun 2019, taka þær gildi 2021. Hver vilt þú helst að verði endanleg niðurstaða úr þeirri endurskoðun?
4. Hvaða fyrirkomulag vilt þú að ráði umfangi íslenskrar mjólkurframleiðslu í framtíðinni?
Ráðgjafafyrirtækið Intellecta sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu gagna.