Beint í efni

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni árið 2012

25.01.2013

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni fyrir árið 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðunum á vef okkar. Nánar má skoða þær hér. Í næsta Bændablaði mun verða gerð betri grein fyrir niðurstöðunum en hér er gert.

Niðurstöðurnar eru þær helstar að 22.879,0 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.606 kg á árinu og er það hækkun úr 5.436 kg árið 2011.

Hæsta meðalnytin á á árinu var á búi Guðmundar og Svanborgar í Miðdal í Kjós, 8.086 kg á árskú. Næst á eftir var bú Jóns og Hrefnu á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði, þar reiknaðist meðalnytin 8.058 kg eftir árskú. Þriðja búið í röðinni var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal en meðalnytin þar var 7.599 kg á árskú.

Á 20 búum fór meðalnytin í 7.000 kg eftir árskú og þar yfir og á fyrrnefndum tveim búum yfir 8.000 kg markið.

Nythæsta kýrin á síðasta ári var Urður nr. 1229 á Hvanneyri í Borgarfirði og mjólkaði hún 13.031 kg. Önnur í röðinni var Varúð nr. 299 í Miðdal í Kjós en nyt hennar var 12.897 kg. Þriðja kýrin var Blúnda nr. 335 í Leirulækjarseli á Mýrum í Borgarbyggð, en hún mjólkaði 12.646 kg. Alls náðu 15 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þessum 15 mjólkuðu 5 yfir 12.000 kg og ein yfir 13.000 kg.

Niðurstöður skýrsluhaldsins