
Niðurstöður afurðaskýrslna nautgriparæktarinnar í júní
11.07.2012
Niðurstöður afurðaskýrslnanna í nautgriparæktinni við lok júní 2012, hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðunum á vef okkar. Nánar má skoða þær hér. Þegar yfirlitið var búið til höfðu borist skýrslur frá 93% þeirra 596 búa sem skráð eru í skýrsluhaldið. Rétt er að minna á það hér að einungis bú sem búið var að skila skýrslum frá fyrir miðnætti hinn 10. júlí geta í þetta sinn birst á listanum yfir bú þar sem nytin var yfir 4000 kg eftir árskú.
Helstu niðurstöðurnar eru þær að 21.861,1 árskýr mjólkaði að meðaltali 5.627 kg sl. 12 mánuði, sem er hækkun um 38 kg frá síðasta uppgjöri. Hæsta meðalnytin við lok júní var á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.830 kg eftir árskú. Næst á eftir kom búið á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, Rang., þar voru meðalafurðirnar 7.630 kg eftir árskú og þriðja búið í röðinni var á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi en þar var nytin 7.607 kg. Efstu búin 2 eru þau sömu og a.m.k síðustu tvo mánuði en búið í Reykjahlíð sem var nr. 3 í maí er í þetta sinn nr. 4. Á 19 búum fór meðalnytin yfir 7.000 kg eftir árskú en á 21 búi í mánuðinum á undan.
Þess ber að geta að hér í þessu stutta yfirliti er aðeins fjallað um meðalnyt á búum þar sem skýrsluhald hefur staðið lengur en 12 mánuði samfleytt.
Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var hin sama og næstu fimm mánuði á undan, Blíða nr. 1151 í Flatey á Mýrum, A.-Skaft., nyt hennar síðastliðna 12 mánuði var 13.305 kg sem er með því allra hæsta sem sést hefur á skýrslum nautgriparæktarinnar hér á landi. Önnur kýrin í röðinni yfir nythæstu kýrnar síðastliðna 12 mánuði var einnig kýr í Flatey, Munda nr. 1131 og er hún í sama sæti og í síðasta mánuði, en hún mjólkaði 13.155 kg. Hin þriðja á þessum lista í júnílok 2012 var Rúna nr. 467 í Reykjahlíð á Skeiðum í Árnessýslu, sem mjólkaði 11.880 kg sl. 12 mánuði. Alls náðu 11 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum og tvær þeirra yfir 13.000 eins og þegar hefur komið fram.
Niðurstöður skýrsluhaldsins