Beint í efni

Niðurstöður afkvæmadóma nauta og nýtt kynbótamat

13.03.2008

Lokið hefur verið við kynbótamatsútreikninga fyrir afkvæmaprófun á nautaárgangi 2001. Þrjú naut, úr árganginum, hlutu ekki dóm í haust þar sem afkvæmahópar þeirra voru enn ekki nægjanlega stórir. Þessi naut koma til dóms nú auk þess sem kynbótaeinkunnir annarra reyndra nauta hafa verið uppfærðar. Einnig voru tekin til skoðunar naut úr árgangi 2002 er höfðu nægjanlegan fjölda dætra bak við sig til að marktækt gæti talist að leggja á þau mat.

Ræktunarhópur í nautgriparækt hefur fundað, yfirfarið niðurstöðurnar og endurskoðað lista reyndra nauta og nautsfeðra.

Af eldri nautum falla út þeir Þverteinn 97032, Laski 00010, Þröstur 00037 og Lás 00045. Úr árgangi 2001 falla út nautin Neisti 01018, Faldur 01017 og Völustakkur 01026 en þrjú yngstu nautin sem áður eru nefnd koma öll inn sem reynd naut. Þetta eru þeir Giljagaur 01032, Völsungsson, frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, Stokkur 01035, Pinkilsson, frá Berustöðum í Ásahreppi og Villingur 01036, Frísksson, frá Villingadal í Eyjafjarðarsveit. Spotti 01027 frá Brúnastöðum í Flóa undirstrikar stöðu sína sem besta nautið í þessum árgangi með 115 í kynbótaeinkunn.

Úr árgangi 2002 var ákveðið að taka, nú þegar, fjögur naut til áframhaldandi notkunar. Þessi naut eiga öll orðið talsverðan fjölda dætra á skýrslum og lofa fyrstu niðurstöður um þau góðu. Þessi naut eru þau Glæðir 02001, Völsungsson, frá Dalbæ í Hrunamannahreppi, og þrír Kaðalssynir þeir Lykill 02003 frá Hæli í Gnúpverjahreppi, Alfons 02008 frá Deildartungu í Reykholtsdal og Skurður 02012 frá Stóru Mörk V-Eyjafjöllum.

Náttfari og Spotti eru áfram á Nautsfeðraskrá og nýir nautsfeður eru þeir Kappi, Alfons og Skurður. Yfirlit yfir kynbótaeinkunnir þessara nauta má nálgast hér og nautaskráin á netinu verður uppfærð innan skamms.

 

GEH