Nestlé fjárfestir í Kína
24.01.2012
Líkt og fleiri stórfyrirtæki innan mjólkurvinnslu hefur nú risinn Nestlé ákveðið að fjárfesta enn frekar í Kína. Fyrirtækið hefur valið Shuangcheng svæðið í Heilongjiang héraðinu í Norð-Austurhluta landsins, skammt norðan við Norður-Kóreu. Svæðið er talið henta afar vel til landbúnaðar og sér í lagi mjólkurframleiðslu. Nú þegar er Nestlé með mjólkurduftsframleiðslu á svæðinu og hefur verið með síðan 1987 en nú verður farið í stórframkvæmdir upp á nærri 50 milljarða íslenskra króna.
Fjármunirnir fara þó ekki eingöngu til uppbyggingar á afurðastöð heldur einnig til fjárfestinga meðal bændanna sjálfra í þeirra aðstöðu til mjólkurframleiðslu og endurmenntun. Hugmyndin er að fá bændurna til þess að vinna saman í stórum einingum í stað smábúskapar sem nú tíðkast á svæðinu. Þá verður sett í gang sérstakt átak við tæknivæðingu mjalta með því að láta setja upp og tengja eitt þúsund ný mjaltatæki á svæðinu/SS.