Beint í efni

Nestlé eykur framleiðslu á Supligen

28.09.2012

Hið svissneska afurðafélag Nestlé hefur tekið í notkun nýja framleiðslulínu í afurðastöð sinni í Jamaíku í Karabíska hafinu. Með hinni nýju framleiðslulínu getur félagið stórbætt framleiðsluna á hinum sérstaka drykk Supligen, en drykkurinn er orkuríkur mjólkurdrykkur sem inniheldur auk mjólkur margskonar viðbætt vítamín og steinefni. Nestlé þróaði þessa vöru árið 1976 og er varan seld í dósum og fernum, markaðssett sem orkudrykkur og fæst með mismunandi bragði.

 

Mjólkurframleiðslan í Jamaíku er afar lítil og var meðalframleiðsla hvers árs árin 2005-2010 12,2 milljónir lítra og nam framleiðslan ekki nema 10,4% af heildarneyslu mjólkurvara í landinu. Skýringin felst í gríðarlegum innflutningi á ódýru mjólkurdufti, mest frá Nýja-Sjálandi, sem kúabændur í landinu hafa á engan hátt getað keppt við. Mjólkurframleiðslan í dag er nærri þriðjungi minni en hún var fyrir 20 árum en helsta vandamál framleiðslunnar er fyrst og fremst uppbygging kerfisins. Búin eru alla jafnan mjög lítil, með lágt afurðastig sem aftur gerir samkeppnisstöðuna vonlitla. Vegna þessa hefur Nestlé nú hafið uppbyggingu á stærri og tæknivæddari búum og í því átaki eru nú 30 kúabú/SS.