Nemendur í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ fögnuðu skólamjólkurdeginum
27.09.2012
Í gær var Alþjóðlegi skólamjólkurdagurinn haldinn í þrettánda sinn víða um heim og í tilefni dagsins buðu íslenskir kúabændur og MS öllum 70.000 leikskóla-og grunnskólabörnum landsins upp á mjólk í skólunum. Reiknað er með að drukknir verði alls sextán þúsund lítrar af mjólk og var Lágafellsskóli í Mosfellsbæ einn þeirra skóla sem fagnaði alþjóðlega skólamjólkurdeginum með þessum hætti.
Nálægt 700 nemendur á aldrinum fimm til fimmtán ára sækja Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Að sögn Rúnars Kristinssonar matreiðslumeistara er þess gætt að bjóða fjölbreyttan og næringarríkan mat í samræmi við ráðleggingar frá Lýðheilsustöð og eru börnin yfirhöfuð ánægð með hann.
Þessar myndir voru teknar í gær af hressum krökkum í Lágafellsskóla sem renndu matnum niður með ískaldri mjólk.
![]() |
Aþena Karaolani, nemandi í Lágafellsskóla |
![]() |
Rúnar Kristinsson matreiðslumeistari skammtar skyrið |
Nánar um skólamjólkurdaginn:
Á skólamjólkurdaginn er vakin athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í fæði barnanna. Á Skólamjólkurdaginn er einnig árlegri teiknisamkeppni hleypt af stokkunum þar sem öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt í samkeppninni. Myndefnið er algjörlega frjálst en æskilegt er að það tengist hollustu mjólkurinnar fyrir ungt fólk.
Mjólk er mjög próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta 14 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Sérstaða mjólkur felst meðal annars í því hve góður kalkgjafi hún er en kalk er mjög mikilvægt fyrir byggingu beina, ekki síst á uppvaxtarárum.