Beint í efni

Nautkálfa vantar á stöð!

03.11.2006

Það sem af er þessu ári hafa einungis um 25 nautkálfar verið teknir á Uppeldisstöðina í Þorleifskoti, en ef vel á að vera þarf að fá um tvöfalda þá tölu á árinu sem senn er á enda. Framboð af kálfum hefur verið óvenju lítið á þessu hausti, sérstaklega af Suðurlandi. Á þessu ári eru teknir kálfar undan Hersi 97033, Rosa 97037, Glanna 98026, Fonti 98027, Umba 98036 og Þrasa 98052.

Þær kröfur sem gerðar eru til mæðra tilvonandi kynbótanauta eru að þær séu með afurðaeinkunn upp á 110 hið minnsta, helst yfir 115, þær séu ekki hyrndar, kynbótamat fyrir próteinhlutfall sé 90 eða hærra, hafi hlotið 16 eða hærra fyrir júgur og spena, 17 eða hærra fyrir mjaltir, 4 eða hærra fyrir skap, hafi haldið reglulegum burði og séu heilsuhraustar. Þá er ástæða til að benda á að kvígur af úrvalsættum, sem enn hafa ekki hlotið kynbótamat koma einnig til greina sem nautsmæður. Bændur eru hvattir til að láta nautgriparæktarráðunauta í héraði vita, ef nautkálfar undan áðurnefndum nautum og kúm sem uppfylla þessi skilyrði, koma í heiminn á þeirra búum.