Beint í efni

Nautin frá VikingGenetics best í heimi?

24.11.2012

Ný greining frá Landbúnaðarstofnun Bandaríkjanna (USDA) hefur leitt í ljós að sé horft til bæði endingar, efnamagns og frjósemi kúa, þá koma svartskjöldóttu nautin frá Norðurlöndunum lang best út og eru þau langtum betri en bandarísk naut. Í þriðja sæti koma svo naut frá Hollandi og þar fyrir neðan svo þýsk naut. Rannsókn þessi byggði eingöngu á úttekt á svartskjöldóttum gripum.

 

Þetta eru vissulega stórtíðindi fyrir hið norræna samstarf í nautgripakynbótum, enda hefur því löngum verið haldið fram að áherslur Norðurlandanna, á heilbrigði og frjósemi, væri einmitt lykillinn að hagkvæmri mjólkurframleiðslu til lengri tíma litið.

 

VikingGenetics er í dag með naut í sölu um allan heim en naut þeirra fá að meðaltali 190 NM$ í einkunn í þessari rannsókn USDA, en NM$ stendur fyrir mat þeirra á hagkvæmni. Bandarísku nautin fengu 150 NM$ í einkunn en þau hollensku ekki nema 111 NM$ í einkunn. Hið mikla bil úr fyrsta sæti í það þriðja sýnir hve gríðarlega arðsemi fylgir því að leggja áherslu á frjósemi, heilbrigði, endingu og efnainnihald mjólkur í stað afurðamagns og útlits gripa eins og oft er gert /SS.