Beint í efni

Nautgripum fækkar í Frakklandi

07.05.2012

Það er ekki bara hægrimönnum sem fækkar í Frakklandi þessa dagana heldur einnig nautgripum, en undanfarin ár hefur þeim fækkað jafnt og þétt og síðasta ár var þar engin undantekning. Alls fækkaði nautgripum innan mjólkurframleiðslunnar um 1% og nautgripum innan kjötframleiðslunnar um 2%. Skýringin á þessu felst meðal annars í aukinni slátrun en slátrunartölur frá Frakklandi sýna að á árinu jókst slátrun um 4% frá fyrra ári. Ástæðan er bæði sú að miklir þurrkar voru síðasta vor og afkastageta beitarlandsins ekki nógu mikil fyrir alla kjötframleiðslugripi en auk þess duttu út styrkir sem gerði framleiðsluna erfiðari.

 

Útlit er fyrir að í ár verði einnig fækkun á nautgripum í Frakklandi en það sést m.a. á því að fjöldi á fengnum kvígum síðasta ár var 7% minni en árið á undan. Það mun því eðlilega koma niður á endurnýjun mjólkurkúa í ár. Þá hefur rannsókna- og þróunarstofnun franska landbúnaðarins, Institut de l’Elevage, spáð því að það verði einnig samdráttur í nautakjötsframleiðslunni í ár um u.þ.b. 5%.

 

Franskir kúabændur halda þó enn afar sterkri stöðu en landið er eitt af þeim stærstu í heiminum í bæði mjólkur- og kjötframleiðslu og má nefna sem dæmi um það að árleg mjólkurframleiðsla er um 23 milljarðar lítra sem gerir landið það annað stærsta í mjólkurframleiðslu í Evrópu á eftir Þýskalandi/SS.