Beint í efni

Nautgriparæktarskóli Búgarðs – skráning fer vel af stað

29.02.2012

Að fyrirmynd Sauðfjárræktarskólans er ætlunin að hrinda af stað Nautgriparæktarskóla Búgarðs. Um er að ræða námskeiðsröð fyrir bændur, 7 námskeið á tímabilinu mars 2012 til febrúar 2013. Í lokin verður öllum þátttakendum stefnt saman (8.skiptið) og þeir útskrifaðir. Staðsetningar námskeiða yrðu háðar þátttöku en stefnan er að ná sama námskeiði í Eyjafirði annars vegar og Suður-Þingeyjarsýslu hins vegar. Lágmarksþátttaka eru 8-12 bú á hvorum stað, 1 eða fleiri
aðilar geta mætt frá sama búinu. Skráning gildir fyrir hvert bú, óháð því hver mætir (ekki skylda fyrir sama aðilann að mæta í öll skiptin). Einungis verður boðið upp á að skrá búið til leiks í
allan námskeiðspakkann, ekki stök námskeið. Farið verður yfir helstu atriði sem varða umönnun og umhirðu nautgripa og hvaða gögn nýtast til að leggja mat á stöðu búsins. Kennslan verður fyrst og fremst í fyrirlestraformi og hvert námskeið varir í 3-4 klukkustundir. Kennslan fer fram á tímanum kl. 11:00-15:00. Ætlunin er að fyrsta námskeiðið fari fram 13. og 14. mars n.k. Nú þegar hafa 12 aðilar skráð sig til þátttöku. Nánari upplýsingar má fá með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

 

Nautgriparæktarskóli Búgarðs 2012-2013