Beint í efni

Nautgriparæktarnámskeið LBHÍ

14.10.2008

Landbúnaðarháskóli Íslands auglýsir tvö námskeið fyrir nautgripabændur. Hið fyrra er Hagkvæm fóðrun nautgripa til kjötframleiðslu, í umsjón Þóroddar Sveinssonar og fer það fram á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 28. október n.k. Hið síðara er Fóðrun og uppeldi kvígna, í umsjón þeirra félaga Grétars Hrafns Harðarsonar og Jóhannesar Sveinbjörnssonar og fer það fram á Hvanneyri 22. október n.k. Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna hér að neðan.

Hagkvæm fóðrun nautgripa til kjötframleiðslu

Námskeiðið er ætlað bændum sem eru í kjötframleiðslu í dag og þeim sem hafa hug á að fara út í slíka framleiðslu.

 

Nautakjötsframleiðsla er mikilvæg aukabúgrein hjá mörgum kúabændum og t.d. námu heildartekjur búgreinarinnar af ungnautakjöti um 900 milljónum króna á sl ári. Nautaeldi er vandasamt og krefst þekkingar og útsjónarsemi auk þess sem framleiðsluferillinn er langur. Eldið hefur fram til þessa byggst að mestu á heyfóðri en bændur eru í dag farnir að gefa kjarnfóður í vaxandi mæli til að tryggja topp flokkun og góðan vaxtarhraða. Eldisfóðrið er lang stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í kjötframleiðslunni og því mikilvægt lágmarka þann kostnað eins mikið og mögulegt er, en án þess að það komi niður á afkomunni.  

 

Á námskeiðinu verða borin saman möguleg en ólík fóðurkerfi í nautkjötsframleiðslunni hér á landi og rætt hvaða áhrif þau hafa á arðsemi eldisins. Þar verður komið inná mikilvæga þætti sem hafa áhrif á arðsemina eins og gæði heyja, fóðurstyrkur, tegundir eldisgripa (Íslendingar, blendingar, uxar eða naut), sláturþungi, hey- og kjarnfóðurverð, verðflokkun kjöts, stofnkostnaður og aðbúnaður gripa, svo það helsta sé nefnt.

 

Kennari: Þóroddur Sveinsson, Landbúnaðarháskóla Íslands

 

Staður og stund: þri. 28.okt. kl.10:30-15:00 (5 kennslustundir) í Leikhúsinu á Möðruvöllum.

Verð:  13.500.- kr

 

Skráningar:  endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000/ 843 5302

Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 3500 kr (óafturkræft) á reikninginn 1103-26-4237, kt. 411204-3590. 

 

Fóðrun og uppeldi kvígna

Markmið námskeiðsins er að gefa markvissar leiðbeiningar um helstu þætti er varða uppeldi á kvígum til viðhalds kúastofninum. Farið verður yfir fóðrun, aðbúnað og sjúkdómavarnir á mismunandi tímaskeiðum í uppeldinu, undirbúning kvígunnar fyrir burð og fóðrun kvígna á 1. mjaltaskeiði. Rætt verður um leiðir til að fullnýta vaxtargetu gripanna miðað við burð um 24 mánaða aldur. Fjallað verður um sumarbeit kvígna í uppeldi. Farið verður yfir aðferðir til að meta árangur uppeldisins á hverjum tíma.

 

Umsjón og kennsla: Grétar Hrafn Harðarson og Jóhannes Sveinbjörnsson, sérfræðingar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Tími:  Mið. 22.okt.  kl. 10:00-16:00 (7,5 kennslustundir) á Hvanneyri

 

Verð: 15.500.-

Skráningar:  endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5033/ 843 5302

Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 4500 kr (óafturkræft) á reikninginn 1103-26-4237, kt. 411204-3590.