Beint í efni

Nautakjötsverð til íslenskra kúabænda það lægasta í Evrópu?

24.07.2003

Landssamband kúabænda hefur tekið saman upplýsingar um verð á nautakjöti til bænda í Danmörku og í samanburði við Ísland kemur fram að danskir bændur fá 25% hærra verð fyrir ungnautakjöt en íslenskir. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, enda hefur verð á nautakjöti á Íslandi hríðlækkað undanfarin ár og stendur í dag ekki undir kostnaði.

Ástæða þess að LK skoðaði upplýsingar um nautakjötsframleiðslu í Danmörku er fyrst og fremst sú að þar byggir framleiðslan á svipuðum aðferðum og hérlendis, en Danir búa þó við mun auðveldari aðstæður til eldis á gripum og framleiðslukostnaður þar er verulega lægri en hér á landi vegna bæði landkosta og lágs fóðurkostnaðar.

 

Áhrif styrkja mikil

Meðalverð á ungnautakjöti hérlendis er um þessar mundir 286,4 kr/kg (200 kg. fallþungi í UNI A) en í Danmörku fær bóndi með sömu framleiðslu 357,5 kr/kg. Stór hluti þess verðs (49,8%) eru styrkir, en hérlendis er nautakjöt framleitt án styrkja.

 

Minna framboð á næstunni?

Í dag er Ísland eina landið í Evrópu þar sem nautakjöt er selt neytendum án þess að kjötið sé niðurgreitt með einum eða öðrum hætti. Ljóst er að fleiri og fleiri kúabændur eru farnir að draga úr framleiðslunni vegna hins lága afurðaverðs og hafa margir þegar hætt framleiðslu nautakjöts. Áhrif á nautakjötsmarkaðinn fer þó ekki að gæta í bráð, enda er framleiðslferill á nautakjöti margfalt lengri en á öðru kjöti eða 2-3 ár. Ákvarðanataka kúabænda í dag stýrir því aðgengi íslenskra neytenda að nautakjöti árin 2005-2006. Ef ekki verður gripið til ráðstafana til að bæta afkomu greinarinnar, s.s. með aðkomu opinberra aðila, verður vart séð annað en að erfitt verði að tryggja íslenskum neytendum hágæða íslenskt nautakjöt um ókomna tíð.