Beint í efni

Nautakjötsútflutningur Argentínu snarminnkar

13.10.2010

Vegna hækkandi verðs á nautakjöti á heimsmarkaði, hefur útflutningur frá Argentínu nú minnkað um nærri 50% frá því árið 2009. Þetta hljómar vissulega undarlega, sem það og er, en ríkisstjórn Argentínu hefur sett verulega hömlur á útflutning á nautakjöti síðustu misserin til þess að halda niðri verðinu á heimamarkaði. Þessi aðgerð er áþekk því sem gerð var í Rússlandi með kornútflutningshöft nú í ágúst. Árið 2009 fluttu argentínskir kúabændur út um 771 þúsund tonn af nautakjöti en útflutningurinn í ár stefnir í 320 þúsund tonn. Þessi ákvörðun ríkisstjórnar Argentínu hefur skapað

markaðstækifæri fyrir önnur lönd og svo virðist sem kúabændur í nágrannaríkinu Úrúgvæ hafi tekið þessum höftum í Argentínu ákaflega vel. Á meðan útflutningur nautakjöts hefur dregist saman í Argentínu hefur útflutningur nautakjöts frá Úrúgvæ stóraukist og stefnir allt í að Úrúgvæ flytji út meira nautakjöt en Argentína í ár.