Beint í efni

Nautakjötsinnflutningur fyrstu 11 mánuði ársins 2010 rúm 100 tonn

19.01.2011

Samkvæmt yfirliti Bændasamtakanna hefur innflutningur á nautakjöti fyrstu 11 mánuði ársins 2010 numið 104 tonnum sem er heldur minna en á sama tíma árið 2009 þegar flutt höfðu verið til landsins 108 tonn. Er þetta samdráttur um 3,2% á milli samanburðartímabila. Á tímabilinu hefur lang mest verið flutt inn af alífuglakjöti eða 357 tonn og er þar um verulega aukningu að ræða frá árinu 2009 eða heil 20,7% á milli samanburðartímabila. Næstmest er flutt

inn af svínakjöti eða 123 tonn sem er einnig þónokkur aukning frá 2009 eða um 17,6%.

 

Heildarinnflutningurinn fyrstu 11 mánuði ársins 2010 nam 613 tonnum en á sama tímabili árið 2009 nam innflutningurinn 589 tonnum. Innflutningur á kjöti til landsins hefur því aukist um 3,9% á milli samanburðartímabila.

 

Rétt er að geta þess að í öllum tilfellum er um hreint kjöt að ræða, þ.e. ekki innflutningur á beinum. Borið saman við tölur um framleiðslu hér á landi má því ætla að 613 tonn svari til rúmlega 1.000 tonna framleiðslu hér á landi, þ.e. miðað við 60% kjöthlutfall að jafnaði á allar kjöttegundir. Fyrstu 11 mánuði ársins nam sala á innlendri kjötframleiðslu 22.121 tonnum og að viðbættum ætluðum innflutningi (með beinum) alls 23.142 tonnum. Áætla má út frá þessum tölum að hlutfall innflutts kjöts hér á markaði nemi um 4,4%.