Nautakjötsframleiðslan ekki styrkt af hinu opinbera í ár
20.11.2003
Hinn 18. nóvember sl. var haldinn fundur í landbúnaðarráðuneytinu þar sem farið var yfir hugsanlegan stuðning ríkisins við „Gæðaverkefni með úrvals nautakjöt“. Fundinn sátu landbúnaðarráðherra og aðstoðarmaður hans, formaður og framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda og nokkrir framleiðendur nautakjöts. Á fundinum kom fram af hálfu landbúnaðarráðherra að ríkissjóður mun ekki styðja verkefnið á þessu ári.
Hins vegar kæmi til greina að semja um stuðning við nautakjöt á grundvelli gæða í viðauka við væntanlegan mjólkursamning í vetur. Ljóst er því að umrætt verkefni nær ekki fram að ganga með þeim hætti sem því var ætlað. Nú er til athugunar hvort hægt er að styðja með einhverjum hætti, en í mun minna mæli, þá framleiðendur sem framleiddu á síðasta verðlagsári það magn kjöts í úrvalsflokki sem gert var ráð fyrir til að komast í verkefnið.