Beint í efni

Nautakjötsframleiðslan 2014 – hvað er framundan?

11.02.2015

Árið 2014 voru 17.658 nautgripir lagðir inn í sláturhús hér á landi og var fallþungi þeirra 3.495 tonn. Þetta er umtalsverður samdráttur frá árinu áður, þegar innlagðir gripir voru 21.383 og samanlagður fallþungi 4.082 tonn. Helsta ástæðan fyrir þessari minnkun framleiðslunnar er mikill samdráttur í slátrun á kúm, í kjölfar mikillar aukningar á eftirspurn eftir mjólkurafurðum undanfarin misseri. Þá er einnig talsverður samdráttur í slátrun ungnauta; undanfarin 2-3 ár hefur eftirspurn eftir nautakjöti farið mjög vaxandi og á tímabili var slátrunin meiri en ásetningur kálfa. Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda- og magntölur í einstökum flokkum nautgripakjöts, ásamt meðal fallþunga í hverjum flokki. Það er jákvætt að sjá að á sama tíma og slátruðum ungnautum fækkar talsvert, er nokkur fjölgun í úrvalsflokki ungnauta; hlutfall úrvalsgripa af UN gripum fer úr 10% í 12%. Það bendir til að víðar sé vandað til framleiðslunnar en áður. Sáralitlar breytingar eru á meðal fallþunga í einstökum flokkum milli ára. Þriðjungs samdráttur í slátrun ungkálfa kemur síðan fram í fjölgun á ásettum kálfum til kjötframleiðslu, sem vekur vonir um að landið muni rísa í þessum efnum á næstu misserum.

Stykkjafjöldi Framleiðsla í kg
Flokkur 2013 2014 Breyting 2013 2014 Breyting
UK 2.407 1.582 -34,3% 46.232 29.705 -35,7%
AK 215 119 -44,7% 14.795 8.971 -39,4%
UN úrval 1.053 1.098 4,3% 295.151 307.356 4,1%
UN 1 9.082 7.961 -12,3% 2.043.739 1.789.714 -12,4%
UN 2 477 321 -32,7% 61.905 41.142 -33,5%
N 51 76 49,0% 12.752 19.080 49,6%
K 1 U 1.751 1.499 -14,4% 343.344 296.334 -13,7%
K 6.347 5.002 -21,2% 1.263.699 1.003.062 -20,6%
Samtals 21.383 17.658 -17,4% 4.081.617 3.495.364 -14,4%
 

Í ljósi þess að talsvert vantaði upp á að innlend framleiðsla á nautgripakjöti næði að svara eftirspurn, var gefin út reglugerð snemma á sl. ári um opna tollkvóta á nautakjöti. Hliðstæð reglugerð var aftur gefin út sl. haust. Á grundvelli þessara reglugerða voru flutt inn 1.047 tonn af nautakjöti, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Sá innflutningur var að lang mestu leyti á formi hakkefnis, eða 752 tonn. Tæp 111 tonn af lundum voru fluttar inn, tæp 80 tonn af hryggvöðvum og rúmlega 86 tonn af lærvöðvum. Í ljósi þessa er ekki óvarlegt að ætla að hlutdeild innflutts nautakjöts sé á bilinu 25-30%, þar sem salan á innflutta kjötinu dreifist að líkindum yfir lengra tímabil en almanaksárið 2014. Þörfin fyrir að styrkari stoðum sé skotið undir innlenda nautakjötsframleiðslu er því orðin himinhrópandi.

 

Samkvæmt upplýsingum úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar virðist hafa orðið umtalsverð aukning í fjölda af ásettum nautkálfum til kjötframleiðslu árið 2014, miðað við árið á undan. Bendir flest til að þeir verði um 11.000, á móti tæplega 9.900 árið 2013. Þessi aukning ætti að byrja að koma fram í framleiðslutölum síðar á þessu ári. Nánar má sjá þróun ásetningsins á myndinni hér að neðan; athuga ber að enn kann að vanta upplýsingar um hluta af þeim kálfum sem komu í heiminn í desembermánuði sl. Auk þessa er líklegt að slátrun á kúm komist aftur í jafnvægi á næstunni og framleiðslan fari vaxandi af þeim sökum einnig.

 

 

 

Þrátt fyrir að horfur séu á að framleiðslan aukist á næstu misserum, er ljóst að sú aukning þarf að vera mjög mikil til að mæta þeirri ört vaxandi eftirspurn sem á sér stað hér á landi. Það er því brýnna en nokkru sinni, að tillögur Landssambands kúabænda um eflingu holdanautabúskapar nái fram að ganga svo fljótt sem auðið er. Það er bjargföst skoðun samtakanna að í honum felist tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum landbúnaði. Betri afkoma, aukin fjárfestingageta og meiri arðsemi eru einnig grundvallar forsendur fyrir aukinni nautakjötsframleiðslu. Heildarhagsmunir landbúnaðarins felast í því að sinna innlendum markaði með hagkvæmri, innlendri búvöruframleiðslu./BHB