
Nautakjötsframleiðsla á Íslandi – Tækifæri, ógnanir og áskorun !
04.02.2017
Segja má að nautakjötsframleiðsla á Íslandi standi nú á tímamótum af ýmsum ástæðum. Framundan eru spennandi, en jafnframt krefjandi tímar.
Ég hef í nokkurn tíma haft þá trú að í nautakjötsframleiðslu felist töluverð tækifæri til atvinnusköpunar í sveitum landsins og það er mikilvægt að bændur landsins nýti sér þau markaðstækifæri sem felast í framleiðslu nautakjöts. Sala og neysla á nautgripakjöti hefur verið að aukast undanfarin ár og á sl. ári jókst salan um rúm 21%. Sala á íslensku nautakjöti árið 2016 var um 4.386 tonn og að verðmæti um 3 milljarðar króna, þá nam innflutningur á nautakjöti 919 tonnum og heildarsala alls nautakjöts var því 5.296 tonn.
Ég er þeirra skoðunar að það má alls ekki kvika frá því viðhorfi, að við eigum að framleiða allar þær landbúnaðarvörur sem við getum með góðu móti hér á Íslandi. Með því móti spörum við þjóðarbúinu gjaldeyri og tryggjum neytendum á Íslandi hágæðavöru án lyfja, hormóna og af þekktum uppruna. Við bændur höfum verið seinir að taka við okkur og nýta þau tækifæri sem skapast hafa með aukinni eftirspurn eftir nautakjöti á Íslandi og eftirlátið innflutningsaðilum að uppfylla það skarð sem myndast hefur á markaðnum fyrir nautgripakjöt.
Þarna er verk að vinna og mikil áskorun fyrir bændur, ráðanauta, afurðarstöðvar og aðrar stofnanir landbúnaðarins að taka höndum saman og beyta sér fyrir framgangi Íslenskrar nautakjötsframleiðslu, markaðurinn er til staðar og fer væntanlega stækkandi á næstu árum. En til þess að íslenska nautakjötið haldi stöðu sinni á markaðnum, þurfum við framleiðendur að bjóða upp á stöðugt framboð af ungnautakjöti af bestu gæðum. Skila frá okkur þungum og vel holdfylltum sláturgripum, sem aldnir hafa verið á góðu fóðri og við góðan aðbúnað.
Afkoman í nautakjötsframleiðslu hefur í mjög langan tíma ekki verið ásættanleg og tel ég að hana megi bæta. Efla þarf nautakjötsframleiðslu sem búgrein, bæta þarf faglegan styrk greinarinnar og rekstrarafkomu. Auka þarf fagmensku í búgreininni með því að byggja upp þekkingargrunn, bæta ráðgjöf og rannsóknir á öllum sviðum er snýr að búgreininni. Þarna hefði ég vilja sjá meira frumkvæði hjá RML og Landbúnaðarháskólanum. Við bændur þurfum svo að vera tilbúnir að nýta okkur þá ráðgjöf og fræðslu sem í boð er.
Búast má við aukinni samkepni við innflutt ungnautakjöt í framtíðinni bæði í verði og gæðum. Það verður ógjörningur að keppa á verðum við innflutning þar sem kostnaður á Íslandi er hærri en í samkeppnislöndunum, svo sem vegna byggingakostnaðar, dýrra aðfanga, hárra launa og vaxta. Einnig gerum við sem samfélag strangar kröfur um góðan aðbúnað og velferð þeirra dýra sem við fáum afurðir af í okkar landbúnaði. Ég geri því ráð fyrir að við sem þjóð gerum sömu kröfur til þeirra landbúnaðarvara sem fluttar eru inn til landsins, sem við erum í samkeppni við, annað væri óásættanlegt.
Tollasamningur sem stjórnvöld hafa gert við Evrópusambandið mun hafa verulegar afleiðingar fyrir alla innlenda kjötframleiðslu. Þá eru einnig nú í gangi málaferli þar sem reynt er að hnekkja banni við innflutningi á fersku kjöti og ef þessi mál fara á versta veg mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla innlenda kjötframleiðslu. Þúsundir starfa eru í hættu allt í kringum landið, bæði í landbúnaði og einnig í kjötafurðarstöðvunum. Við bændur gerum þá kröfu að stjórnvöld og þá sérstaklega landbúnaðarráðherra kynni sér þessi mál vel og geri sér grein fyrir þeim afleiðingum sem það geti haft að hingað til lands streymi, í óheftu magni, kjöt af óljósum uppruna með tilheyrandi sjúkdómahættu, mengun og ógn við lýðheilsu landsmanna. Það á að vera sjálfsagður hlutur að við, sem sjálfstæð þjóð, framleiðum öll þau matmæli sem við getum með góðu móti framleitt hér á landi fyrir neytendur þessa lands, enda efast enginn um gæði og hreinleika okkar landbúnaðarvara.
Í Búvörusamningnum sem nú hefur tekið gildi eru þau nýmæli að tekin hefur verið upp stuðningur við nautakjötsframleiðslu, greitt verður álag á föll sem standast ákveðnar gæðakröfur. Þessi stuðningur tel ég að muni skila stórauknum fjölda af þungum og holdfylltum sláturgripum, sem auðvelda mun markaðsetningu og auka hagkvæmni við vinnslu nautgripaafurða. Þessi stuðningur tel ég að muni bæta gæði okkar framleiðslu til muna. Einnig eru greiddar gripagreiðslur á kýr af holdanautastofnum sem eingöngu ala af sér gripi til kjötframleiðslu, enda löngu tímabært að skjóta styrkari stoðum undir slíkt framleiðsluform. Tel ég að í svoleiðis búskap felist töluverð tækifæri fyrir bændur sem ráða yfir húsum og aðstæðum sem henta slíkum búrekstri.
Nú hyllir loks undir að á þessu ári verði flutt inn erðaefni til kynbóta í holdakúastofninum. Verið er að byggja einangrunarstöð að Stóra Ármóti og munu væntanlega nú í sumar verða settir upp fósturvísar í kýr sem þar verða svo áfram í einangrun. Afrakstur af þessum innflutningi mun ekki skila sér á markað fyrr en eftir 5-6 ár. Þetta er gríðalega mikilvæg aðgerð, og mun án efa skila okkur hraðvaxnari gripum með betri fóðurnýtingu og holdfyllingu.
Á næstu vikum verður tekið upp svokallað Europ matskerfi, sem notað verður við mat á kjötskrokkum. Með þessu nýja matskerfi fáum við mun nákvæmara mat á fitu og holdastigi falla, sem mun segja okkur bændum og kaupendum betur hvernig gripi við erum að láta frá okkur á markað.
Nú hefur tekið gildi ný aðbúnaðarreglugerð sem ætlað er að auka velferð dýra og gerðar eru m.a. stórauknar rýmiskröfur fyrir gripi í uppeldi og um bættan aðbúnað. Þessi atriði munu gera það að verkum að einhverjir framleiðendur munu þurfa að draga úr framleiðslu eða ráðast í framkvæmdir til að uppfylla kröfur um bættan aðbúnað. Vert er að minna á að bændur geta sótt um framkvæmdastyrk til endurbóta á aðstöðu eða til nýbygginga.
Sl. vor var ég kosinn inn í stjórn LK af fulltrúum á aðalfundi og varð með því fyrsti fulltrúi nautakjötsframleiðenda í stjórn LK frá upphafi samtakanna. Með því að kjósa mig í stjórn LK sýndu fulltrúar á aðalfundi það í verki að samtökunum er umhugað um það að nautakjötsframleiðsla á að vera eitt að viðfangsefnum samtakanna, jafnframt því að gæta hagsuna allra bænda á Íslandi er halda nautgripi.
Það hefur verið gaman og jafnframt fróðlegt að sjá hvað starf samtakanna er fjölbreytt og öflugt. LK gætir hagsmuna atvinnugreinar sem veltir um 23 milljörðum króna árlega og ég tel gríðarlega mikilvægt að nautgripabændur allir eigi verkfæri eins og LK saman og taki virkan þátt í rekstri þess og starfi. Framundan eru sem fyrr mikilvæg verkefni í að gæta hagsmuna búgreinarinnar, það gerir það enginn betur en við bændur sjálfir, því vil ég hvetja þá bændur sem ekki enn hafa skráð sig í LK að gera það sem fyrst, það er mjög mikilvægt að við rekum hagsmunagæsluna öll saman.
Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga mikið af góðu ræktunarlandi og nóg af hreinu vatni, sem er lykilinn af farsælli búvöruframleiðslu okkar Íslendinga. Ræktunarland og þekking okkar á nýtingu þess er ein af mikilvægustu auðlindum þessar þjóðar. Við sem samfélag eigum áfram að bera gæfu til þess að nýta þessa auðlind í sátt við land og þjóð, þá mun okkur vel farnast.
Bessi Freyr Vésteinsson, Hofstaðaseli
Meðstjórnandi í LK