Beint í efni

Nautakjötsframleiðsla á Íslandi – Tækifæri, ógnanir og áskorun !

04.02.2017

Bessi Freyr Vésteinsson, meðstjórnandi í LK, ritar leiðara febrúarmánaðar á naut.is. Bessi víkur í leiðaranum að stöðu nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi og þeim tækifærum sem búa í þessari mikilvægu búgrein okkar. Hann bendir m.a. á mikilvægi þess að Ísland sé sjálfbjarga með helstu landbúnaðarvörur og segir m.a.: „Ég er þeirra skoðunar að það má alls ekki kvika frá því viðhorfi, að við eigum að framleiða allar þær landbúnaðarvörur sem við getum með góðu móti hér á Íslandi. Með því móti spörum við þjóðarbúinu gjaldeyri og tryggjum neytendum á Íslandi hágæðavöru án lyfja, hormóna og af þekktum uppruna. Við bændur höfum verið seinir að taka við okkur og nýta þau tækifæri sem skapast hafa með aukinni eftirspurn eftir nautakjöti á Íslandi og eftirlátið innflutningsaðilum að uppfylla það skarð sem myndast hefur á markaðnum fyrir nautgripakjöt.

Þarna er verk að vinna og mikil áskorun fyrir bændur, ráðanauta, afurðarstöðvar og aðrar stofnanir landbúnaðarins að taka höndum saman og beyta sér fyrir framgangi Íslenskrar nautakjötsframleiðslu, markaðurinn er til staðar og fer væntanlega stækkandi á næstu árum. En til þess að íslenska nautakjötið haldi stöðu sinni á markaðnum, þurfum við framleiðendur að bjóða upp á stöðugt framboð af ungnautakjöti af bestu gæðum. Skila frá okkur þungum og vel holdfylltum sláturgripum, sem aldnir hafa verið á góðu fóðri og við góðan aðbúnað“.

Þá víkur hann að fjölmörgum öðrum hagsmunamálum sem snúa að nautakjötsframleiðslunni s.s. þörf fyrir bætta ráðgjöf og rannsóknir, aukinni samkeppni við innfluttar vörur, um stuðning við nautakjötsframleiðsluna, innflutning á erfðaefni og fleiri áhugaverð mál.

Þú getur lesið leiðarann í heild sinni með því að smella hér, en hann má einnig lesa hér á forsíðunni/SS.