Beint í efni

Nautakjöt með mesta söluaukningu árið 2010

17.01.2011

Sala á nautgripakjöti í desember sl. var 324 tonn, sem er heilum 20,9% meira en í sama mánuði í fyrra samkvæmt yfirliti Bændasamtakanna. Þar af nam sala á ungnautakjöti 172 tonnum, sem er 19,8% aukning m.v. sama mánuð á sl. ári.

 

Þegar litið er til sölunnar árið 2010, sést að hún hefur aukist um 4,3% m.v. árið á undan og nam salan alls 3.916 tonnum. Mest er salan á ungnautakjöti eða 2.201 tonn (56,2%).

 

Árið 2010 var erfitt ár í alífuglarækt en þrátt fyrir það nam sala þess 7.190 tonnum (aukning um +0,7% frá 2009), salan á lambakjöti var 6.275 tonn (aukning um +0,2% frá 2009), af svínakjöti seldust 6.025  

tonn (samdráttur um -5,2% frá 2009) og sala á hrossakjöti var 541 tonn (samdráttur um -18,2% frá 2009).

 

Horft yfir landið er alífuglakjöt enn vinsælast með 30,0% hlutdeild á markaði, þar á eftir kemur lambakjötið með 26,2%, þá svínakjöt með 25,2% og að lokum nautakjöt með 16,4%.