Nautakjöt í ES framleitt með tapi árið 2010
18.05.2011
Í Svíþjóð er starfrækt vefsíða sem ber saman framleiðslukostnað nautakjöts á milli landa ásamt því að bjóða upp á ýmiskonar þjónustu fyrir nautgripabændur. Undanfarin ár hefur þessi síða, Agribeef.se, þjónustað sænska nautgripabændur með því að bjóða upp á samanburð á framleiðslukostnaði og fleiri rekstrarþáttum innan Svíþjóðar.
Nú er komin áhugaverð nýjung á þessa síðu, en bændur geta nú skoðað ýmsar gagnlegar upplýsingar um rekstrarþætti nautakjötsframleiðslunnar í ýmsum öðrum löndum. Greiningarvinnan byggir á upplýsingum og gögnum frá alþjóðlegu samtökunum Agri Benchmark Beef Network, en mörg lönd eru aðilar að samtökunum og tilgangur þeirra er að tengja saman fagfólk í nautakjötsframleiðslu.
Eitt af því sem mögulegt er að skoða er hagkvæmni framleiðslunnar, launagreiðslugetu ofl. og þar kemur m.a. skýrt fram, sem kemur líklega ekki á óvart, að ef ekki kæmu til styrkir og aðrar bætur frá Evrópusambandinu þá væri nautakjötsframleiðslan rekin með miklu tapi.
Smelltu hér á www.agribeef.se til þess að skoða þessa áhugaverðu heimasíðu/SS.