Beint í efni

Nautakjöt ekki vinsælast í Bandaríkjunum!

15.01.2014

Samkvæmt nýrri samantekt frá Priceonomics í Bandaríkjunum er nú í fyrsta skipti í sögunni kjúklingakjöt meira selt en nautakjöt þar í landi. Alls nemur nú neyslan á kjúklingakjöti 27 kílóum á hvern íbúa landsins en neysla nautakjöts kemur rétt á eftir með 26,4 kíló.

 

Er þar nokkuð sögulegum tímapunkti náð en neysla á nautakjöti í Bandaríkjunum hefur dregist saman jafnt og þétt allt frá árinu 1970 þegar meðalneyslan var 40 kg á hvern íbúa á ári. Skýringin er, rétt eins og sést einnig hér á landi, einfaldlega breyttar venjur og auknar áherslur á neyslu á hvítu kjöti í stað rauðs. Þessi breyting síðustu nærri 45 ár hefur þó ekki haft áhrif á svínakjötsneysluna í Bandaríkjunum en hún hefur verið nokkuð jöfn í kringum 20 kíló á hvern íbúa síðustu áratugi/SS.