Beint í efni

Nautakjöt á heimsmarkaði mun haldast hátt

14.06.2011

Vegna stöðugt vaxandi kostnaðar við nautaeldi í Brasilíu, m.a. vegna aukinnar samkeppni þar í landi um landbúnaðarland, er allt útlit fyrir að verð á nautakjöti muni haldast á líku reki og það er nú á næstu árum. Þetta kemur fram í úttekt Agrimoney sem birt var nýverið. Þar kemur fram að stóraukin framleiðsla á bæði sykri og korni hefur gert það að verkum að land sem áður var nýtt til beitar er nú í fullri ræktun og hefur það leitt til hækkandi eldiskostnaðar nautgripa. Þessi staðreynd hefur gert það að verkum að verð á nautakjöti frá Brasilíu er nú mun hærra en t.d. frá Ástralíu, nokkuð sem áður hefur nú líklegast þótt óhugsandi að gæti gerst.

 

Þá metur Rabobank, líklega sérhæfðasti banki í heiminum varðandi fjármál landbúnaðar, stöðuna þannig að líkur séu á því að eldiskostnaður nauta í Brasilíu eigi eftir að hækka enn frekar samhliða auknum áherslum á umhverfismál, s.s. vegna hreinsunar vatnasvæðis Amason svo dæmi sé tekið.

 

Það er jafnframt mat Rabobank að þó svo að kaupendur kjöts kunni etv. að snúa sér annað í leit að ódýrara nautakjöti, s.s. til Ástralíu, Nýja-Sjálands eða Bandaríkjanna, þá muni ekkert þessara landa ná að svara vaxandi eftirspurn. Samhliða auknum lífsgæðum í mörgum löndum eykst eftirspurn eftir nautakjöti og því sjá framangreindir aðilar ekki annað í kortunum en jafnhátt eða jafnvel hækkandi verð á komandi árum/SS.

 

Frétt Agrimoney um nautakjötsverð