Beint í efni

Nauðsynlegt að eiga gott samtal!

18.08.2018

Það hefur gengið á ýmsu varðandi heyskap á landinu okkar þetta sumarið, en sem betur fer rættist sæmilega úr í flestum landshlutum þegar líða tók á og er útlitið heldur bærilegra en í upphafi sumars.

Sumarið er skrítinn tími í stjórnsýslunni og mál þokast hægt vegna sumarleyfa en eru nú að byrja að hreyfast aftur. Ljóst er að við getum búist við nokkrum breytingum þar sem allnokkrar mannabreytingar eiga sér stað í ANR (Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu) og er Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri til margra ára, að flytja sig um set og enn fleiri mannabreytingar eru líklegar. Í ljósi þess er greinilegt að við fáum að líta einhver ný andlit nú í heimsóknum okkar LK í ráðuneytið og við þá endurskoðunarvinnu búvörusamninga sem nú er á döfinni.

Á dögunum ákvað ráðherra að breyta reglugerð nr. 1181/2017 um stuðning við nautgriparækt með því að setja undir það sem kallað hefur verið „jarðaleki“, þ.e. að koma í veg fyrir sýndarviðskipti sem átt hafa sér stað í viðskiptum með greiðslumark. Með þessu er ráðherra að bregðast við ályktun sem samþykkt var aðalfundi Landssambands kúabænda 2018, þar sem skorað var á ráðherra að taka á málinu. Tilgangurinn með þessu er að koma í veg fyrir að bændur kaupi jarðir, flytji greiðslumarkið, og selja þær svo strax aftur og komist þannig hjá því að treysta á innlausnarmarkaðinn til greiðslumarkskaupa. Ég óskaði eftir því sérstaklega, þegar vinna við þessar breytingar stóð yfir, að tryggt yrði í framhaldinu að nýtt fyrirkomulag kæmi ekki í veg fyrir „eðlilega“ sameiningu jarða þ.e. að áfram yrði hægt að sameina samliggjandi jarðir og/eða jarðir sem stærðar eða nýtingar vegna er skynsamlegt að sameina nálægum jörðum. Undir þetta var tekið á fundi Framkvæmdanefndar búvörusamninga og LK mun svo fylgja því eftir í komandi vinnu við búvörusamninginn.

Sitt sýnist hverjum í þessu máli og hef ég fengið nokkur viðbrögð við þessum breytingum þar sem bændur tjá bæði ánægju sína yfir því að nú sitji allir við sama borð varðandi verslun með greiðslumark, en einnig ónægju þar sem bændur hafa gagnrýnt að núverandi fyrirkomulag á viðskiptum með greiðslumark komi í veg fyirr að bændur geti stækkað bú sín eins og þeir telja sig þurfa. Bæði sjónarmiðin eiga fullan rétt á sér.

Sú staðreynd blasir við okkur að nauðsynlegt er að liðka fyrir á einhvern hátt með viðskipti með greiðslumark, það þarf bæði að vera kaupenda- og seljendamarkaður til að fá virkni í kerfið okkar.

Á síðasta innlausnarmarkaði voru í boði rúmlega 170 þús. lítrar en óskað var eftir tæplega 150 milljón lítrum, sem nemur rétt tæplega heildarframleiðslunni á landinu. Það sér hver maður það þetta fyrirkomulag er ekki að ná neinni virkni og þarfnast tafarlausra breytinga og munum við hjá LK beita okkur í þeim málum nú í endurskoðunarvinnunni sem framundan er. Það er mikil vinna framundan vegna endurskoðunar búvörusamninga og nauðsynlegt að bændur eigi gott samtal um þessi framtíðarmál greinarinnar. Til þess að það getir orðið verður umræðan að eiga sér stað á réttum vettvangi og því vil ég hvetja alla kúabændur til að mæta á haustfundi LK og koma sínum sjónarmiðum til skila á þeim vetvangi. Á fundunum verður lögð áhersla á að ræða ítarlega það fyrirkomulag sem við viljum að ríki á skipan okkar mála til framtíðar. Þannig verða til skýr samningsmarkmið fyrir okkur sem stöndum í brúnni að vinna eftir.

Landssamband kúabænda er í raun ekkert annað en bændurnir sjálfir, sambandið hefur mikla vigt innan stjórnsýslunnar og það eigum við að nýta til að koma vilja okkar bænda á framfæri og það gerum við ekki nema að taka samtalið og teikna upp myndina eins og við viljum sjá hana.

Gangi ykkur öllum vel í haustverkununum sem framundan eru!

Hranastöðum í ágúst 2018

Arnar Árnason