Beint í efni

Námskeið um úrval á grunni erfðamengis

09.03.2016

Í dag, 9. mars og á morgun, 10. mars fer fram námskeið á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands og RML um úrval á grunni erfðamengis, sem á ensku kallast „genomic selection“. Sú aðferð er um þessar mundir að ryðja hefðbundnum afkvæmaprófunum í nautgriparækt til hliðar um allan heim og valda þannig einni mestu byltingu í kynbótastarfi nautgripa sem orðið hefur í áratugi. Geno í Noregi er dæmi um þetta, en þar var síðasta nautið sett í hefðbundna afkvæmaprófun fyrir stuttu en félagið mun hér eftir snúa sér alfarið að úrvali á grunni erfðamengis.

 

Aðferðin byggir í stuttu máli á því að kynbótaeinkunnir gripanna fyrir einstaka eiginleika; afurðir, frjósemi, júgurheilbrigði, byggingu o.s.frv. byggja á greiningu á erfðaefni þeirra (DNA). Einkunnirnar geta því legið fyrir skömmu eftir að þeir koma í heiminn. Nautin koma því til notkunar sem reynd naut um leið og þau hafa aldur til og gefa nothæft sæði. „Ungnaut“ eða „óreynd naut“ heyra því sögunni til. Aðferðin leiðir því til dramatískrar styttingar á ættliðabili og þar með stóraukinna erfðaframfara og árangurs af ræktunarstarfinu.

 

Erfðaprófin eru ekki eingöngu gerð á nautum, heldur einnig á kvígum og kúm, þannig að val nautsmæðra byggir á mun traustari grunni en áður. Þá hafa kúabændur víða um heim fengið í hendurnar gríðarlega öflugt tæki til að hafa hemil á skyldleikarækt og aukningu hennar. Hér er því um alger straumhvörf að ræða, sem líkja má við áhrif þess þegar sæðingar komu til sögunnar fyrir um 80 árum.

 

Aðal fyrirlesararnir á námskeiðinu eru tveir. Peer Berg er danskur kynbótafræðingur og forstöðumaður húsdýradeildar

NordGen. Hann hefur um áratuga skeið stundað búfjárerfðarannsóknir í fjölda búfjártegunda og er síðustu árin einn umsvifamesti höfundur vísindagreina um hinar nýju aðferðir á heimsvísu. John McEwan frá Nýja-Sjálandi, starfar hjá AgResearch á Nýja-Sjálandi og er mjög kunnur erfðagreiningum bæði fræðilega og ekki síður tæknilega nánast frá frumbernsku greinarinnar. John hefur um árabil verið nánasti samstarfsmaður Stofnfisks í sambandi við notkun erfðatækni.

 

Eitt megin markmiðið með þessu námskeið er að kanna hvort, og þá með hvaða hætti megi nýta þessar aðferðir í þágu búfjárræktar og kynbótastarfs hér á landi. Þess má einnig geta, að fjallað verður um úrval á grunni erfðamengis á Fagþingi nautgriparæktarinnar þann 31. mars n.k./BHB