Beint í efni

Námskeið fyrir kúabændur við Lbhí á vorönn 2012

06.01.2012

Eftirtalin námskeið á sviði nautgripa- og jarðræktar eru í boði við Landbúnaðarháskóla Íslands nú á vorönn:

 

Lífræn aðlögun nautgriparæktar
Námskeið Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands haldið í samstarfi við Vottunarstofuna Tún ehf.
 
Námskeiðið er ætlað þeim sem stunda nautgriparækt í meira eða minna mæli og hafa áhuga á að kynna sér möguleika sína á upptöku lífrænna aðferða og á markaðssetningu lífrænna afurða nautgripa, þ.e. mjólkur og kjöts.
 
Dagskrá:
12.45-13.30 Aðlögunarferlið – yfirlit um markmið og leiðir – Dr. Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns.
13.35-14.20 Uppruni, aðlögun, aðbúnaður, útivist og beit  – Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands.
14.25-15.10 Fóðuröflun, fóðrun og heilbrigði  – Runólfur Sigursveinsson, nautgriparæktarráðunautur BSSL
15.25-16.10 Reynsla bónda af lífrænni nautgriparækt  – NN, bóndi í lífrænni nautgriparæktun
16.15-17.00 Eftirlit, vottun, markaðssetning og kostnaður  – Dr. Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns.
 
Á námskeiðinu verður fjallað um helstu þætti lífrænnar aðlögunar, einkum fóðurframleiðslu, aðbúnað og heilbrigði nautgripanna. Fjallað verður um vandamál sem tengjast húsakosti, beitarstjórnun, heyöflun og sjúkdómum, og gerð grein fyrir fenginni reynslu bænda og dýralækna af lausn þeirra með náttúrulegum, fyrirbyggjandi aðferðum. Þá verður fjallað um skýrsluhald, eftirlit og vottun lífrænnar nautgriparæktar, og aðra þætti sem huga þarf að við markaðssetningu lífrænna afurða.
 
Stund og staður: fim. 2. feb, frá 12:45-17:00 (5,5 kennslustund) í Félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli.
Verð: 14.000 kr (kennsla, gögn og veitingar)   Skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma: 433 5000. Skráningarfrestur til 26. jan
 

Betri fjós – ATH. Var dagsett í upphafi 18. janúar en verður 15. febrúar!
Eins dags námskeið fyrir kúabændur sem byggir á uppgjöri rannsóknarverkefnisins Betri fjós, sem nú er nýlokið. Á námskeiðinu verður farið yfir nýjungar á sviði húsbygginga, innréttinga og fóðrunartækni í fjósum. Þá verður farið yfir ýmsa þætti varðandi mjaltaaðstöðu og -tækni, bæði fyrir mjaltagryfjur og mjaltaþjóna. Sérstök áhersla verður jafnframt lögð á aðstöðu fyrir geldneyti. Þá verður varið drjúgum hluta námskeiðsins í það að fara yfir reynslu hérlendra bænda af nýbyggðum fjósum og hvað þeir telja að skuli varast og hvað hafi tekist sérlega vel. Þetta er námskeið sem á erindi til allra kúabænda sem hafa staðið í framkvæmdum, eru að standa í framkvæmdum eða eru að huga að framkvæmdum.
 
Kennari: Snorri Sigurðsson, sérfræðingur hjá LbhÍ.
 Tími: Mið. 15. feb. kl. 10:00-16:30 (8  kennslustundir) á Stóra-Ármóti
 Verð: 14.000 kr (kennsla, gögn og veitingar)    Skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma: 433 5000. Skráningarfrestur til 8. feb.
 
Bætt mjólkurgæði
Eins dags námskeið fyrir kúabændur. Á námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti varðandi uppbyggingu júgursins og mjólkurmyndunar. Fjallað verður um mjaltatækni, nýjungar, vinnusparandi tækni sem og mjaltaþjóna. Rætt um júgurbólgu, aðgerðir gegn henni og nýjungar á því sviði. Lögð áhersla á þá mikilvægu þætti sem hafa áhrif á efnainnihald mjólkur og tengsla hennar við afkomu búsins, ásamt sérstakri áherslu á framleiðslu hágæðamjólkur, m.t.t. líf- og frumutölu. Þetta er námskeið sem á erindi til allra kúabænda sem vilja ná tökum á mjólkurgæðunum og auka arðsemis bús síns með þeim hætti.
 
Kennari: Snorri Sigurðsson, sérfræðingur hjá LbhÍ.
 
Tími: þri. 20. mars kl. 10:00-16:30 (8  kennslustundir) í stofunni Höfða í Ásgarði á Hvanneyri (með fyrirvara um breytingar)
 Verð: 14.000 kr (kennsla, gögn og veitingar)  Skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma: 433 5000. Skráningarfrestur til 13. mars.

Jarðræktarforritið Jord.is
Haldið í samstarfið við Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands
 
Námskeiðið er einkum ætlað bændum, en er þó öðrum opið. Hámark þátttakanda er 12. Námskeiðið kennt í tölvustofum þar sem því er við komið eða í almennum kennslustofum með nettengingu. Nemendur mæta því með sínar eigin fartölvur, þeir sem geta.
 
Kennt verður á nýtt skýrsluhaldsforrit í jarðrækt, jörð.is, sem er að taka við af jarðræktarforritinu NPK. Farið verður yfir helstu þætti þess hvernig bændur geta nýtt sér vefforritið til að halda utan um jarðræktarsögu búsins, útbúa áburðaráætlanir og nýta við verðsamanburð á milli áburðarsala.
 
Kennarar: Borgar Páll Bragason verkefnastjóri hjá Bændasamtökum Íslands.
Tvö námskeið:
1) Tími: Fim. 19. jan, kl. 10:00-17:00 (8,5 kennslustund) á Hellu.
2) Tími: Fös. 20. jan, kl. 10:00-17:00 (8,5 kennslustund) á Kirkjubæjarklaustri.
Verð: 14.900kr  – skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000   Minnum á Starfsmenntasjóð bænda www.bondi.is
 
Lífræn jarðyrkja: Útiræktun á fóðri og matjurtum
Námskeið Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands haldið í samstarfi við Vottunarstofuna Tún ehf.
Námskeiðið er ætlað þeim sem stunda lífræna jarðyrkju í meira eða minna mæli og hafa áhuga á að kynna sér möguleika sína á upptöku lífrænna aðferða til fóðuröflunar fyrir búfé eða til ræktunar á matjurtum.
 
Dagskrá:
12.45-13.30 Aðlögunarferlið – yfirlit um markmið og leiðir  – Dr. Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns.
13.35-14.20 Mat á ástandi jarðvegs, nýting næringarefna og aðflutt næringarefni – Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands.
14.25-15.10 Sáðvara, önnur aðföng, umbúnaður og varnir, skiptiræktun – Gunnþór Guðfinnsson, garðyrkjufræðingur.
15.25-16.10 Reynsla bónda af lífrænni ræktun: Vandamál og úrlausnir – Guðfinnur Jakobsson, bóndi í Skaftholti.
16.15-17.00 Eftirlit, vottun, markaðssetning og kostnaður –  Dr. Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns.
 
Á námskeiðinu verður fjallað um helstu þætti lífrænnar aðlögunar, einkum jarðveg og meðferð hans. Rætt verður um jarðvegsgreiningar, hagkvæma nýtingu næringarefna sem til falla t.d. grænáburðarplöntur, búfjáráburð og safnhaugagerð. Þá er rætt um þörf fyrir aðfengin næringarefni, sáðvöru og önnur aðföng, og hvernig brugðist er við helstu vandamálum í ræktun, s.s. skordýrum, sveppum og samkeppnisplöntum (“illgresi”). Farið er í gegnum skiptiræktun og gerð sáðskiptaáætlana.
 
Þá verður fjallað um skýrsluhald, eftirlit og vottun lífrænnar ræktunar, og aðra þætti sem huga þarf að við markaðssetningu lífrænna afurða.
 
Stund og staður: fös. 27. jan., 2012 frá 12:45-17:00 (5,5 kennslustund) að Stóra Ármóti.
Verð: 14.000 kr (kennsla, gögn og veitingar)   Skráningar: endurmenntun@lbhi.is eða í síma: 433 5000. Skráningarfrestur til 22. jan