Námskeið fyrir bændur hjá LBHÍ
15.09.2006
Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands hefur kynnt lista yfir námskeið sem bændum standa til boða nú á haustönn. Yfirlitið má sjá á heimasíðu skólans sem er að finna hér. Þá skal á það minnt að hægt verður að sækja um stuðning í nýstofnaðan Starfsmenntasjóð bænda. Þá er algengt að stéttarfélög hvers konar styðji félagsmenn til að sækja námskeið.
Sérstaklega skal bent á námskeið í Bústjórn sem haldið verður á Selfossi í október og nóvember (19. og 26. október og 2., 9., 16. og 23. nóvember). Markmið námskeiðsins eru „að auðvelda starfandi bændum og þeim sem huga að stofnun búreksturs, skilning á grundvallaratriðum í rekstrarhagfræði. Fjallað er um mismunandi rekstrarform, samspil framleiðslufanga og afurða, kostnaðarskipan fyrirtækja og uppsetningu ársreikninga. Mikil áhersla er lögð á að kynna fyrir nemendum helstu vaxtarhugtök, vaxtareikning, vísitölur og hin ýmsu form skuldabréfa. Í síðasta hlutanum er fjallað ítarlega um laun og launagreiðslur“.
Námskeiðsröðin skiptist í sex sjálfstæða daga. Nemendur geta því valið um að taka alla dagana eða kaupa staka daga. Verð á allri námskeiðsröðinni er 51.600 kr en stakur dagur kostar 12.900 kr.