Beint í efni

Næst erfiðasta starf í heimi?

15.05.2012

Á hverju ári gefur bandaríska ráðningaskrifstofan Career Cast út lista yfir bestu og verstu störf í heimi og á þeim lista fyrir árið 2012 gefur að líta störf við mjólkurframleiðslu í sæti númer 199 af 200 á listanum! Einungis vinna við skógarhögg telst verri eða erfiðari en að vinna við mjólkurframleiðslu að mati bandarísku skrifstofunnar.

 

Matið byggir á stigakerfi þar sem gefin eru stig í samræmi við vinnuumhverfið þar sem bæði líkamlegt álag er metið, sem og andlegt s.s. stress. Þá er jafnframt horf til framtíðarinnar með tekjumöguleika í huga, möguleika á framgangi í starfi ofl.

 

Að teknu tilliti til ofanritaðs telur skrifstofan að starf við mjólkurframleiðslu sé bæði líkamlega erfitt og að möguleikarnir á því að fá vinnu við hæfi séu frekar litlir. Þá séu launin einungis í meðallagi að mati skrifstofunnar og framgangsmöguleikar í starfi ennfremur takmarkaðir. Af öðrum störfum innan landbúnaðar má nefna að starf dýralæknis telst eitt af betri störfum heimsins og er í 21. sæti á listanum.

 

Í efsta sæti listans er starf tölvunarverkfræðings og í efstu sætum listans eru m.a. tannlæknastörf, fjármálaráðgjafar ofl. slík störf. Helsta skýringin á því afhverju þessi störf eru í efstu sætum skýrast af miklum möguleikum á tekjuöflun. Hægt er að skoða lista Career Cast á heimasíðu fyrirtækisins: www.careercast.com/SS.