Nærri 800 nautgripir drápust í kuldakasti í Víetnam
18.02.2016
Í vetur hefur veðurfarið í heiminum verið afar óvenjulegt og valdið miklu tjóni m.a. í nautgriparækt. Við sögðum einmitt frá því um daginn hvernig miklir þurrkar hafa kostað þúsundir nautgripa lífið í Suður-Afríku en á sama tíma hafa miklar vetrarhörkur sett allt á annan endann í Víetnam. Í febrúar er algengt hitastig í Víetnam í kringum 20 gráður en nú í byrjun mánaðarins gekk mikið kuldakast yfir landið með mikilli snjókomu, eitthvað sem ekki hefur sést í langan tíma. Þetta kuldakast olli miklum búsefjum en talið er að 800 nautgripir hafi drepist í norðurhluta landsins.
Verst varð veðrið í Quang Ninh héraðinu en þar hafa nú fundist 217 nautgripir sem urðu úti en þar á eftir kom Lao Cai héraðið þar sem einnig varð mikil snjókoma og hafa nú fundist 174 nautgripir sem urðu úti. Alls hafa nú fundist 773 nautgripir sem urðu úti. Þá skemmdust nærri þrjú þúsund hektarar með grænmeti auk þess sem margkonar annað tjón varð vegna ofankomunnar. Fljótt skipast veður í lofti í orðsins fyllstu merkingu en í liðinni viku var hitastigið í Lao Cai komið á ný í rúmlega 20 gráður og allur snjór því löngu horfinn/SS.