
Murray Goulburn enn í vandræðum
15.02.2018
Ástralska afurðafélagið Murray Goulburn er í verulegum vandræðum, eins og við höfum áður greint frá. Félagið, sem er í eigu 2.200 þarlendra kúabænda, var selt síðasta haust til kanadíska afurðafyrirtækisins Saputo en sá samruni hefur ekki gengið í gegn þar sem samkeppnisyfirvöld hafa ekki enn samþykkt samrunann. Félagið hefur því haldið áfram starfsemi sinni án aðkomu Saputo og hefur í raun ekki getað leyst úr sínum vanda. Félagið gat framan af síðasta ári ekki greitt jafn hátt afurðastöðvaverð og aðrar afurðastöðvar í landinu og neyddust því margir kúabændur og eigendur félagsins til þess að flytja sig yfir til afurðafélaga sem borguðu betur. Þetta þýddi verulegan samdrátt í innvigtun mjólkur og alls fékk félagið nærri 30% minna magn af mjólk fyrstu 6 mánuði rekstrarárs þess en sömu mánuði árið áður.
Niðurstöðu áströlsku samkeppnisstofnunarinnar er að vænta 1. mars nk. og hafa forsvarsmenn Murray Goulburn varða við því að ef samrunanum við Saputo verði hafnað geti það haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir félagið og jafnvel leitt til endaloka félagsins/SS.