Munu sömu reglur gilda í Evrópusambandinu árið 2010 og gilda hér í dag?
23.06.2005
Á aðalfundi NMSM í dag kom fram að nýjar reglur Evrópusambandsins um matvælaframleiðslu og eftirlit, sem ná m.a. til mjólkurframleiðslu, taka gildi 1. janúar nk. Reglurnar hafa nokkur áhrif á Íslandi einnig, þar sem íslenskar mjólkurafurðastöðvar hafa sk. útflutningsleyfi á Evrópusambandið. Áhrifin verða þó hverfandi á meðal íslenskra kúabænda, enda eru í dag gerðar mjög strangar kröfur til
mjólkurframleiðenda hér á landi.
Þrátt fyrir að reglugerðingildi frá 1. janúar 2006 þá hafa aðildarlönd Evrópusambandsins fjögurra ára aðlögunartíma að reglugerðinni og í ársbyrjun 2010 eiga svo öll lönd innan Evrópusambandsins að ná að uppfylla sömu kröfur og íslensk mjólkurframleiðsla gerir í raun í dag.
Raunar hafa komið fram efasemdir um að þetta markmið Evrópusambandsins náist fyrir árið 2010, enda eru enn verulegir ágallar á eftirliti með mjólkurframleiðslu og dýravelferð í mörgum löndum Evrópusambandsins og gildir þar einu hvort rætt er um nýju aðildarlönd Evrópusambandsins eða lönd í suðurhluta Evrópu.
Þrátt fyrir að Evrópusambandslöndin hafi fjögurra ára aðlögunarfrest til þess að uppfylla ný skilyrði, þurfa líklega öll lönd sem flytja afurðir til Evrópusambandsins að uppfylla kröfurnar sama dag og reglugerðirnar taka gildi. Ekki liggur fyrir hvort EES-samningurinn geri það þó að verkum að þau lönd sem honum tengjast og eru ekki í Evrópusambandinu fái sama frest og lönd innan Evrópusambandsins.