
Mun skyrið okkar bjarga bandarískum mjólkuriðnaði?
23.04.2019
Ef marka má frétt frá hinni heimsfrægu Bloomberg fréttaveitu þá horfa mörg afurðafyrirtæki í Bandaríkjunum hýru auga til skyrframleiðslu og um leið gleðjast kúabændur landsins enda þarf töluvert magn af mjólk til framleiðslu á einu kílói af skyri. Það eru afar gleðileg tíðindi enda hefur afurðastöðvaverð á mjólk verið afar lágt í Bandaríkjunum í mörg ár og kúabændur þar og vinnsluaðilar hafa leitað logandi ljósi að lausn á minnkandi sölu.
Í langri fréttaskýringu Bloomberg, sem lesa má með því að smella hér, kemur m.a. fram að sala á hinu þekkta gríska jógúrti hefur heldur verið að dala og áhugi bandarískra neytenda á skyri sé að aukast jafnt og þétt. Hátt próteininnihald og lítið magn af sykri fellur vel að neysluáherslum nútímans, en algengt er að skyrið sé einungis með um helming þess magn af sykri og þrefalt meira af próteini en sambærileg dós af jógúrti.
Góður árangur við sölu á skyri í Bandaríkjunum er nú farinn að koma skýrt fram í þarlendum sölutölum. Þannig sýna t.d. nýjustu tölur til að sala á grískri jógúrt hafi dalað um 3,4% á 12 mánaða tímabili frá mars 2018 til febrúar 2019, en á sama tíma hafi sala á skyri aukist um 24% og nam verðmæti skyrsölunnar á þessu tímabili 173,9 milljónum dollara eða nærri 21 milljarði íslenskra króna/SS.