Mun loks birta til á kornmarkaðinum?
27.05.2011
Nú hefur landbúnaðarráðuneytið í Úkraínu ákveðið að fella úr gildi útflutningsbann á korni, sem sett var í fyrra. Þar með er þó ekki útflutningur hafinn á ný frá þessu mikla kornframleiðslandi, þar sem ríkisstjórnin þarf að samþykkja málið. Líklegt þykir að svo verði. Þá eru loks taldar stórar líkur á því að Rússland felli einnig niður sitt útflutningsbann og munar um minna.
Möguleg áhrif af þessum tíðindum munu koma fram á uppboðsmörkuðum næstu daga og standa vonir til þess að verð taki að lækka á ný, eftir að hvert verðmetið á korni hefur slegið annað undanfarið. Vel hefur viðrað til kornræktar í Evrópu en á sama tíma hallað undan í Bandaríkjunum og hefur það keyrt verðið á korni upp í hæstu hæðir.
Áætluð útflutningsgeta þessara tveggja landa er veruleg eða annars vegar 1,9 milljón tonn af hveiti og 2,4 milljón tonn af maís frá Úkraínu og talið er að Rússland geti flutt út um 15 milljón tonn af korni. Til þess að setja þessar tölur í samhengi má geta þess að talið sé að heimsmarkaðsframleiðslan á hveiti í ár verði um 680 milljón tonn, um 810 milljón tonn af maís og um 130 milljón tonn af byggi/SS.