Beint í efni

Müller fjárfestir fyrir 14 milljarða

27.09.2017

Þýska afurðafélagið Müller stendur í stórræðum í Stóra-Bretlandi um þessar mundir en félagið er að bæði endurgera vinnslustöðvar en einnig að byggja við. Félagið, sem er næst stærst í Stóra-Bretlandi á sviði mjólkurvinnslu, er með starfsstöðvar víða og er í afar fjölbreyttri mjólkurvinnslu. Í þessum áfanga félagsins er þó fyrst og fremst horft til uppbyggingar í Shropshire, Market Drayton og Telford.

Í tilkynningu um uppbygginguna segir að markmiðið sé aðallega að efla starfsemina á sviði jógúrt- og eftirréttaframleiðslu og byggja upp aukna framleiðslu svo hægt verði að spyrna við fótum við innfluttum mjólkurvörum, en þar er væntanlega einnig horft til Brexit og áhrifa af væntanlegum tollum á innfluttar matvörur þegar viðskilnaðurinn við Evrópusambandið gengur í gegn. Þá ætlar félagið í mikið markaðsátak til þess að ná undir sig markaði fyrir þessar mjólkurvörur en alls leggur félagið 14 milljarða íslenskra króna í bæði endurbætur, uppbyggingu og markaðssetninguna/SS.