Beint í efni

MS stefnir að auknum útflutningi

06.02.2012

Í janúar sl. gekk útflutningsdeild MS frá nýjum dreifingarsamningi við bandarískt ferskvörudreifingarfyrirtæki í New York. Einkasölusamningur sem í gildi var við Whole Foods í Bandaríkjunum gekk úr gildi á síðasta ári og því var farið að leita að nýjum dreifingaraðilum í þeim tilgangi að auka sölu á skyri í Bandaríkjunum. Fyrir valinu varð fyrirtæki sem heitir Gourmet Guru Inc í New York en það sérhæfir sig í dreifingu á náttúrulegum og lífrænum gæða mjólkurvörum og þjónustar um 1.500 verslanir á New York svæðinu.

 

Á síðasta ári verðlaunaði borgarstjóri New York borgar Michael Bloomberg GG sem fyrirtæki ársins 2011 í flokki smærri fyrirtækja sem eru staðsett í Bronx New York. Sett hefur verið upp ítarlegt sölu og markaðsplan fyrir þetta svæði en þess má geta til fróðleiks að á svæðinu búa jafn margir og í allri Skandinavíu eða yfir 20 milljónir manna. Á Stór New York svæðinu er gríðarlegt framboð af alls kyns mjólkurvörum og samkeppnin mjög hörð. Að sögn Jóns Axels Péturssonar, framkvæmdastjóra Sölu- og markaðssviðs MS er stefnt að því að tvöfalda söluna frá því sem nú er og að skyr verði í boði í amk. 1.000 verslunum á næstu 12-20 mánuðum. Í dag er salan á skyri 120 tonn á ári eða um 720 þúsund dósir/SS – Mjólkurpósturinn.