MS krefst lögbanns í Finnlandi
29.08.2015
MS mun nú eftir helgi leggja fram kröfu um lögbann á notkun á heitinu Skyr á vörur Arla í Finnlandi, en sagt er frá málinu í Morgunblaðinu í dag. Við höfum sagt frá því all oft að Arla hefur markaðssett skyr víða um heim með ríkulegri tengingu við íslenskan uppruna skyrsins, þó svo að innihaldið eigi ekkert skylt við íslenska mjólkurframleiðslu né sé framleitt hér á landi. Raunar eru fleiri aðilar sem selja skyr með sambærilegri tengingu við Ísland en hirða hvorki um að greiða eðlilega þóknun fyrir notkun á nafninu né að taka skýrt fram að ekki sé um íslenska vöru að ræða.
MS er með Skyr sem skráð vörumerki í bæði Noregi og Finnlandi og hefur því sterkari stöðu þar en í öðrum löndum en vera má að þetta skref verði upphafið að stærra skrefi í þá átt að ná tökum á sölu þessari einstöku íslensku afurð erlendis. Sjá má nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu og á mbl.is/SS.