MS gerir framhaldssamning um Skólahreysti
13.02.2012
Skólahreysti er þjóðinni að góðu kunn nú orðið en Skólahreysti er þrek og íþróttakeppni á milli nemenda í grunnskólum landsins. Í ár munu um 120 grunnskólar taka þátt í kepnninni og um 3.500 nemendur! Keppnin er orðin vel þekkt og mikill metnaður á meðal keppenda að ná sem lengst en keppt er í fjölbreyttum greinum.
Það er einkafyrirtækið Icefitness ehf. sem sér um og rekur Skólahreysti en í forsvari þess fyrirtækis eru hjónin og hugsjónafólkið Andrés Guðmundsson og Lára Berglind Helgadóttir. Keppnin sjálf gengur út á það að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu, þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í mismunandi þrautum.
Vinsældir Skólahreysti hafa aukist jafnt og þétt og hefur keppnin svo sannarlega hitt í mark meðal krakkanna, skólanna og ekki síst foreldranna sem hafa áttað sig á heilbrigðum skilaboðum keppninnar og mikilvægu forvarnargildi hennar. Þá hefur og skapast mikil og góð stemning meðal nemenda þeirra skóla sem taka þátt í keppninni.
Frá upphafi hefur Sjónvarpið gert Skólahreysti mjög góð skil og eru sýndir 50 mín þættir um undankeppnirnar og úrslitin eru í beinni útsendingu. Í ár verður Skólahreysti sýnt í sjónvarpinu á RÚV frá 22. mars til 26. apríl og þann 28. febrúar gefur Morgunblaðið út sérblað tileinkað Skólahreysti 2012, en keppnin sjálf hefst í grunnskólum landsins 1. mars nk. Hægt er að lesa nánar um keppnina á heimasíðu hennar: www.skolahreysti.is.
Undanfarin ár hafa kúabændur landsins, í gegnum MS, verið aðal styrktaraðilar keppninnar og á meðfylgjandi mynd má sjá Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóra Sölu- og markaðssviðs MS og Andrés Guðmundsson hjá Icefitness ehf. skrifa undir samning vegna keppninnar í ár/SS-Mjólkurpósturinn.