Beint í efni

MS: afkoma fyrir skatta 1,7% af veltu

02.03.2013

Aðalfundur Mjólkursamsölunnar ehf. var haldinn í gær og af því tilefni tók naut.is Einar Sigurðsson, forstjóra MS tali. Að sögn Einars batnaði rekstur Mjólkursamsölunnar á árinu 2012 og skilaði 290 milljóna króna hagnaði eftir skatta.  Félagið búi að því að vera enn að innleysa árangur af hagræðingaraðgerðum undanfarinna missera, sem vegi upp á móti verðbólguhækkunum mikilvægra kostnaðarliða. Þó sé ljóst að tækifærum, til verulegra áframhaldandi hagræðingaaðgerða í starfseminni, fækkar. „Afkoma MS fyrir skatta hefur batnað um liðlega 1,1 milljarða króna á ársgrunni frá því hún var lökust árið 2008. Engu að síður er rétt að hafa hugfast að afkoman fyrir skatta er aðeins um 1,7% af veltu“, sagði Einar í viðtali við naut.is.

 

Að sögn Einars skiptir MS og kúabændur landsins miklu máli að framleiðsluvörur þeirra njóti trausts á markaði.  Mjólkursamsalan er í öllum mælingum í hópi þeirra fyrirtækja sem neytendur treysta best. Þetta megi meðal annars rekja til þeirrar frjóu og öflugu vöruþróunar, sem er einn af lykil stefnuþáttum félagisns.  Þetta má einnig rekja til þeirrar áherslu sem jafnan hefur verið lögð á að bæta stöðugt hráefni og slá hvergi slöku við í gæðaáherslum í starfseminni.  Þessi áhersla á gæði hráefnis og vinnslu er mikilvægur þáttur í að viðhalda jafnri og mikilli sölu. „Frá stofnun MS hefur verið skapað svigrúm í rekstrinum til að hækka mjólkurverð um rétt tæp 70%, sem er um það bil hækkun verðlagsgrundvallarsbúsins á tímabilinu, þó svo að á sama tíma hafi markaðsverðhækkanir verið bundnar við 55%. Það sem þarna ber í milli hefur verið skapað með því að lækka all hressilega kostnað í starfseminni“, sagði Einar áfram í viðtali við naut.is.

 

Á árinu 2012 hófst Mjólkursamsalan handa um endurskipulagningu starfsemi í þremur stærstu vinnslustöðvunum, á Akureyri, á Selfossi og í Reykavík.  Þetta hefur í för með sér um tveggja milljarða króna fjárfestingar. Þeirra er þegar farið að sjá merki í reikningi ársins 2012 vegna fyrirframgreiðslna og langra afgreiðslufresta. Eftir mitt ár 2013, þegar þessi tæki verða tekin í notkun, munu þessar fjárfestingar síðan skila töluverðri hagræðingu í starfseminni.

 

„Áætlanir Mjólkursamsölunnar gera ekki ráð fyrir miklum breytingum til batnaðar í ytra umhverfi á árinu 2013. Mikilvægustu viðfangsefnin á árinu eru að ljúka þeim breytingum á framleiðsluskipulagi sem nú standa yfir og sækja að fullu þá hagræðingu sem þessar breytingar gefa færi á. Félagið mun einnig á þessu ári kanna hvaða möguleika til lækkunar kostnaðar eru í boði með breyttu fyrirkomulagi á mjólkursöfnun. Þar verður meðal annars skoðað það fyrirkomulag að sækja mjólk á þriggja daga fresti allt árið“, sagði Einar að lokum í viðtali við naut.is.

 

Þess má geta að deildarfundir Auðhumlu hefjast á föstudaginn kemur og þá mun kúabændum að sjálfsögðu gefast kostur á að kynna sér nákvæmlega rekstur félagsins og ræða málefni MS við forsvarsmenn þess/SS.