Beint í efni

Mörg þúsund kýr drepist vegna hita

18.07.2017

Mikil hitabylgja í Kalíforníu í Bandaríkjunum hefur leitt til dauða mörg þúsund kúa undanfarnar vikur en talið er að hátt í 10 þúsund nautgripir hafi drepist úr hita. Ótal aðferðum er beitt til þess að draga úr hitastreitu gripanna en algengasta aðferðin er að úða vatni á þá til kælingar. Það dugar þó ekki til í öllum tilfellum og þá hefur aðgengi að vatni einnig verið takmarkað í einhverjum tilvikum.

Sjálfdauðar eða aflífaðar skepnur eru fluttar í sérstakar vinnslustöðvar þar sem skinn þeirra eru nýtt, fitan tekin frá og restin af skrokkinum svo nýtt til mjölgerðar en nú er svo komið að ekki er hægt að taka við fleiri hræum hjá móttökustöðvum fylkisins, sem hafa hreinlega ekki undan. Auk þess var annað vandamál komið upp en það var að lagersvæði móttökustöðvanna var einnig fullt svo það var hreinlega ekki pláss til þess að taka við fleiri hræum/SS.