Beint í efni

Mörg sóknarfæri í nautakjötsframleiðslu

03.02.2018

Nú hef ég setið í stjórn LK í tæplega ár. Síðustu mánuðir hafa verið skemmtilegir og lærdómsríkir og vil ég þakka félagsmönnum fyrir það tækifæri að fá að starfa í stjórn félagsins. Það var margt sem mig langaði að skrifa um enda margt áhugavert sem stjórn LK kemur að og ekki pláss fyrir allt í stuttum leiðara.

Stefnumótun
Nautakjötsframleiðslan er mér ofarlega í huga þessa stundina þar sem á nýju ári var farið af stað af krafti í stefnumótun og situr undirrituð í stefnumótunarhópi nautgripakjötsframleiðslunnar.

Það er vissulega margt sameiginlegt sem mjólkur- og kjötframleiðendur takast á við, hvort sem það eru áskoranir eða tækifæri. Þó þykir mér gleðilegt að nú sé í fyrsta skipti unnið að stefnumótun fyrir greinina í tvennu lagi og nautakjötsframleiðslunni þar með gert hærra undir höfði.

Að stefnumótuninni koma aðilar úr allri virðiskeðjunni. Kjöthópurinn er skipaður bændum víðsvegar af landinu sem stunda nautakjötsframleiðslu bæði með og án mjólkurframleiðslu. Auk bænda eru aðilar frá afurðarstöðvum og úr veitingageiranum. Til að víkka sjóndeildarhringinn enn frekar eru svo fengnir gestir á fundi hópsins. Með þessu móti reynum við að fá sýn á nautakjötsframleiðsluna, allt frá burði kálfs að diski neytanda.

Vinnan hefur verið áhugaverð. Þar sem hópurinn er fjölbreyttur hafa komið fram ólík sjónarmið og nýir vinklar á greinina. Fyrsti fundur hópsins var hugmyndaflugsfundur þar sem komu fram gríðarlegur fjöldi hugmynda að þróun og betrumbótum í greininni. Það er að mörgu að huga og horft á grundvallarþætti eins og gæði afurða, ímyndar- og markaðsmál, arðbærni, umhverfismál, velferð dýra og neytenda. Horft er til aukinnar nýsköpunar og bæta þarf fræðslu og rannsóknir á öllum sviðum greinarinnar.

Hvar stöndum við?
Með auknum fjölda ferðamanna hefur eftirspurn eftir nautakjöti aukist ásamt því að landsmenn eru farnir að auka sína neyslu. Þetta er tækifæri sem við þurfum að grípa og stefna á að svara eftirspurninni að mestu leyti með íslensku hágæða nautakjöti.

Erlendis er kjöti oft skipt niður eftir gæðum í matvöruverslunum. Sem dæmi má nefna að kjöt er sett á sérstakan stall ef það hefur verið framleitt við ákveðin skilyrði s.s. grasfóðrun, lágmarks sýklalyfjanotkun og að ekki hafi verið notaðir vaxtarhvetjandi hormónar.

Neytandinn getur treyst á að ofantaldir hlutir eigi við þegar íslenskt kjöt verður fyrir valinu, telur það jafnvel nokkuð sjálfsagt. Þá má telja upp fleiri kosti, hreina vatnið, vinnulöggjöf, aðbúnaðarreglugerð ofrv. Þetta er dýrmætt og við þurfum stöðugt að minna á þetta og koma á framfæri við neytendur.

Er ekki ástæða til að setja íslenska kjötið á stall í verslunum?

Tækifæri fólgin í fræðslu
Mikil þörf er á aukinni fræðslu og upplýsingagjöf til bænda, matreiðslufólks og neytenda.

Í aukinni fræðslu til bænda eru fólgin tækifæri til að bæta bæði gæði og arðbærni í framleiðslu. Mestur hluti af nautakjöti framleiddu á Íslandi er af nautgripum af íslenska kúakyninu. Þetta kyn hefur ekki sömu vaxtargetu og erlend kjötkyn enda hefur það ekki verið ræktað sem slíkt.

Þá er spurning hvort að hægt sé að auka áherslu á kjötframleiðsluna í kynbótastarfinu. Ekki hefur verið ræktað fyrir kjöteiginleikum hjá íslenska kúakyninu og það tekur langan tíma að ná árangri þar.

Í frétt á vef LK sem Axel Kárason skrifar í desember síðastliðinn bendir hann á áhugaverðan punkt. Þó að við þekkjum enn ekki arfgengi kjöteiginleika í íslenska kúakyninu er áhugavert að horfa á erlend kyn. Af 7 holdakynum og holstein reynist arfgengi holdfyllingar frá 0,06 til 0,36. Þetta segir okkur að umhverfisþættir geta verið gríðarlega áhrifamiklir og því mikil sóknarfæri í kjötframleiðslu hvort sem er átt við holdanaut eða íslensk í bættri fóðrun og aðbúnaði.

Matreiðslufólk eru talsmenn okkar vöru og því gríðarlega mikilvægt að styrkja sambandið við þá grein og auka fræðslu á báða bóga.

Neytandinn þarf að fá upplýsingar. Gott er að minna á kosti og heilnæmi okkar vöru en það er að mínu mati einnig mjög mikilvægt að gæðaflokkun skili sér út í búð svo kaupandi hafi betra val og tengi jafnvel betur við vöruna.

Önnur tækifæri
Ekki er komin næg reynsla á flokkun og verðþróun í nýju EUROP kerfi þar sem enn hafa ekki allar afurðarstöðvar gefið út verðskrá eftir nýju mati. Ég ætla ekki að vera langorð um þetta mál núna enda búið að fjalla nokkuð um það á vef LK.

Með EUROP kerfinu er hægt gera betur mun á gæðum skrokka og mynda þannig hvata fyrir framleiðendur að gera betur og umbuna fyrir það. Það er enn ekki komin næg reynsla á þetta og mun stjórn LK halda áfram að fylgjast vel með þróun mála og verja hagsmuni bænda.

Með nýlega innfluttu erfðaefni aukast tækifæri í holdagriparækt umtalsvert. Von er á fyrstu Angus kálfunum á einangrunarstöðinni að Stóra-Ármóti næsta haust.

Ég velti fyrir mér hvort að við mjólkurframleiðendur gætum gert meira af því að sæða mjólkurkýr með holdagripum ef kjötbændur myndu sýna því áhuga að kaupa þessa kálfa á hærra verði. Með notkun holdasæðis er hægt að koma í veg fyrir að fá óspenndi gripi áfram í ræktunina og fá um leið kálf sem er hægt að fá ögn meira út úr.

Með auknum stuðning við nautakjötsframleiðslu í formi gripagreiðslna fyrir holdakýr og álagsgreiðslur á fallþunga, auk fjárfestingastuðnings myndast betri tækifæri fyrir bæði nýja aðila að fara út í nautakjötsframleiðslu og tækifæri fyrir framleiðendur að bæta sýna aðstöðu og afkomu.

Ég leyfi mér að trúa því að framtíð íslenskrar nautakjötsframleiðslu sé björt. Með auknum tækifærum fáum við vonandi á markaðinn bæði meira og betra kjöt og náum að svara aukinni eftirspurn nautakjöts sem undanfarið hefur því miður verið uppfyllt að hluta með innflutningi. Við erum með einstaka vöru í höndunum en þurfum að halda vel á spöðunum. Við þurfum að horfa á hvað er vel gert, hlúa að því og um leið setja okkur markmið að gera enn betur!

Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum og í stjórn LK