Beint í efni

Mörg lönd að auka mjólkurframleiðslu sína verulega

03.08.2010

Bændur í öllum helstu mjólkurframleiðslulöndum heimsins eru nú byrjaðir að svara kallinu eftir meiri mjólk. Eins og naut.is hefur greint frá áður hefur orðið veruleg hækkun á mjólkurvörum á alþjóðamörkuðum á þessu ári og nú eru fyrstu viðbrögð markaðanna að koma í ljós. Af þeim má ráða að mikil framleiðsluaukning er í kortunum, sem etv. getur svo haft þau áhrif að verð falli á ný.
 

Mjólkurframleiðslan í Bandaríkjunum var 2,4% meiri í júní sl. en árið 2009 og aukning mjólkurframleiðslu innan Evrópusambandsins var 0,8% í maí miðað 

við árið 2009. Er þessi munur verulegur, enda hafði ekki orðið vart við framleiðsluaukningu fyrr á árinu hvorki innan Bandaríkjanna né Evrópusambandsins.

 

Samhliða metur landbúnaðarráðuneyti Nýja-Sjálands það svo að svigrúm þarlendrar mjólkurframleiðslu sé afar mikið og að framleiðslan geti aukist um 14% fram til loka apríl 2011. Ennfremur eru líkur á að framleiðslan í Ástralíu sé að taka við sér á ný eftir 3,3% samdrátt árið 2009.
Gangi eftir að framleiðsluaukningin verði jafn mikil og útlit er fyrir, aukast líkurnar á því að verð mjólkurvara á heimsmarkaði falli eitthvað í verði á ný en þó er of snemmt að spá fyrir um það.

DairyCo