Beint í efni

Monsanto vill losna við hormónaframleiðslu

12.08.2008

Bandaríska fyrirtækið Monsanto, sem er eitt öflugasta fyrirtæki heims á sviði erfðatækni, vill nú selja þann hluta félagsins sem nefnist „Posilac“ og sér um framleiðslu á mjólkurmyndunarhormóninu rBST (Bovine Somatotropin). Vill félagið nú einbeita sér að kjarnastarfsemi þess, sem er framleiðsla á erfðabreyttu sáðkorni ýmis konar, aðallega maís og sojabauna. Gengur sú framleiðsla að sögn afar vel. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að stórar bandarískar smásöluverslanir á borð við Wal-Mart, Kroger og Publix vilja eingöngu selja mjólkurafurðir frá kúm sem ekki hafa verið meðhöndlaðar með hormóninu. Notkun þess hefur mætt vaxandi andstöðu meðal neytenda þar vestra.

Mjólkuriðnaðarfyrirtækin, þ.á.m. Dean Foods sem er landsins stærsta, hafa einnig í vaxandi mæli tekið upp viðskipti við bú sem ekki nota BST. Samkvæmt skoðanakönnun sem bandaríska landbúnaðarráðuneytið gerði árið 2007, var um 17% bandarískra kúa gefið BST að staðaldri, en Monsanto staðhæfði nýlega að þetta sama hlutfall væri 30%. Fyrir nokkrum árum var um 70% kúa gefið rBST til að örva mjólkurmyndun.

 

Vart þarf að taka fram að noktun viðlíka hormóna er með öllu bönnuð hér á landi.

 

Í þessu samhengi vill undirritaður rifja upp heimsókn á tvö kúabú í Wisconsin ríki í september 2003. Á öðru búinu var rBST notað en hinu ekki og var munurinn á kúnum sláandi.

 

Á því minna, búi þeirra Chapman bræðra, voru 450 kýr sem á ca. tveggja vikna fresti fengu sprautu með hormóninu. Þær mjólkuðu feikn, meðalnyt allra kúa á búinu var tæp 33 kg á dag eða tæp 12.000 kg á ári. Flestar voru kýrnar horaðar og heldur illa útlítandi.

 

Á því stærra, búi hinna hollensku hjóna Henk og Lindu Kenkhuis voru 1.400 kýr. Þar var hormón ekki notað, bóndi kvaðst „ekki vilja vera í vinnu hjá Monsanto“ enda litu kýrnar þar vel út og í góðum holdum. Meðalnytin var milli 10 og 11 þús. kg sem má telja all skikkanlegt.