Beint í efni

Moeskær Compass besta Hereford naut í heimi!

03.03.2018

Undanfarna áratugi hafa bestu kynbótagripir holdanautakynsins Hereford komið frá löndum utan Evrópu, en nú virðist áratuga öflug kynbótavinna að vera að skila evrópskum löndum á ný í fremstu röð við ræktun þessa sögufræga holdanautakyns. Árlega er valið besta Hereford kynbótanaut í heimi og nú í lok janúar hlotnaðist evrópsku nauti þessi mikil heiður í fyrsta skipti, en það var nautið Moeskær Compass 1487 sem hefur nú fengið nafnbótina „Hereford Champion of the World“.

Moeskær Compass er tveggja ára gamall og er frá danska ræktunarbúinu Moeskær Polled Hereford við Randers. Holdanautabú þetta, sem telur 50 kýr auk gripa í uppeldi, er sérstakt vegna þess að það ræktar eingöngu kollótta gripi. Það hefur legið í loftinu um nokkurt skeið að Moeskær Compass myndi komast í sögubækurnar enda bæði afar vel ættaður, með hörku góða byggingu og hefur sýnt mjög sterka einstaklingseiginleika varðandi umgengni og lundarfar.

Þegar hann var ársgamall var hann þegar orðinn 730 kíló á fæti og þó ungur væri vann hann titilinn „Besta naut Danmerkur“ og „Besta Hereford naut Evrópu“ árið 2016. Þann titil vann hann einnig í fyrra og vann svo eins og áður segir titilinn besta Hereford naut í heimi í lok janúar. Nú er hann tveggja ára, vegur 1,4 tonn á fæti og býr þessa dagana við gott atlæti á nautastöð í Danmörku þar sem hann er í sæðistöku. Hægt er að lesa og fræðast um Moeskær holdanautabúið á heimasíðu þeirra: www.moeskaer.com /SS.