Beint í efni

Mjúkt gólf gott fyrir bæði kýr og kvígur

10.10.2011

Sænsk rannsókn hefur nú leitt í ljós, sem etv. kemur ekki á óvart, að kýr sem ganga á gúmmíklæddum gólfum eru með bæði betra ástand á klaufum og með minna um fótamein en kýr sem ganga á hörðum gólfum. Rannsóknin, sem var afar umfangsmikil, tók til ástands á 120 kvígum við mismunandi gólfgerðir og hvernig ástand þeirra breyttist við að fara yfir í legubásafjós af ólíkum gerðum.

 

Niðurstöðurnar leiða m.a. í ljós að ekki er ráðlegt að hafa kvígur í hálmstíum allan sinn uppeldistíma, ef til stendur að setja þær í fjós með steyptu undirlagi þar sem þær lenda þá miklu fremur í vandamálum. Þá kom í ljós að kýrnar á gúmmíklæddu gólfunum voru með mun minni skaða, hárlausa bletti osfrv. en hinn samanburðarhópurinn og það þrátt fyrir að sami aðbúnaður hafi verið í legubásunum. Bendir það til, að sögn vísindamannanna, að á hörðum gólfum séu kýrnar stundum að detta jafnvel þó svo að lítið verði vart við slík slys.
 
Mikilvægustu skilaboðin sem lesa má út úr þessum niðurstöðum eru í raun þau að þegar gripir eru fluttir á milli mismunandi undirlags, m.t.t. mýktar, þá þarf að gefa þeim góðan tíma til þess að venjast nýjum aðstæðum og að venja eigi kvígur við nýtt undirlag löngu fyrir burð.

 

Þess má jafnframt geta að til eru margar ólíkar gerðir af lausnum til þess að mýkja undirlag kúa. Þannig eru á markaðinum (amk. erlendis) fjölmargir sem bjóða gúmmí sem þolir sköfur t.d. fyrir slétta flóra. Einnig eru til nokkrar lausnir til þess að gera yfirborð steyptra rimla mjúkt/SS.