Beint í efni

Mjólkurvörur stærsti hluti landbúnaðarframleiðslunnar

15.07.2013

Rétt eins og hér á landi eru mjólk og mjólkurvörur lang stærsti hluti búfjárframleiðslu landa Evrópusambandsins en nýverið kom út skýrsla um framleiðsluna árið 2011 á vegum Eurostat. Þar kemur fram að verðmæti framleiðslu kúabænda og afurðastöðva í mjólkuriðnaði nam heilum 8.600 milljörðum íslenskra króna það ár, sem er um þriðjungur heildarveltu búfjárafurða frá löndum Evrópusambandsins.

 

Sé öll landbúnaðarframleiðslan tekin með í reikninginn fellur þetta hlutfall niður í 14%. Þau lönd sem eru lang umsvifamest í mjólkurframleiðslunni eru Þýskaland, Frakkland, Stóra-Bretland, Holland, Ítalía og Pólland en þessi sex lönd standa undir 70% af heildar mjólkurframleiðslu landa Evrópusambandsins.

 

Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að mjólkurkúm fækki þá hefur meðalframleiðsla, lagt inn í afurðastöðvarnar, hækkað um 20% á einungis 10 árum eða frá 5.585 kg árið 2001 í 6.692 kg árið 2011. Afurðamestu gripirnir eru sem fyrr hér á Norðurlöndunum en afurðaminnstu kýrnar eru í Rúmeníu og Búlgaríu þar sem ekki nema 4.000 kg eru innvegin í afurðastöðvarnar frá hverri kú að jafnaði/SS.