Mjólkurvörur lækka í verði að raungildi
16.01.2007
Almennt verðlag hækkaði um 7 % á síðasta ári. Það er því eðlilegt að spyrja hvers vegna mjólkurvörur hækka ekki í takt við annað verðlag, því kostnaður við mjólkurframleiðslu og vinnslu hlýtur að hafa hækkað. Skýringin á þessu er þátttaka kúabænda og mjólkuriðnaðar í því átaki sem nú er í gangi til að lækka matvælaverð á Íslandi. Síðasta ár hefur verið mikil og oft á tíðum ósanngjörn umræða um matvælaverðið. Um það er þó ekki ágreiningur hvað mjólk og mjólkurvörur varðar, að framleiðslukostnaður á Íslandi er hár í samanburði við margar aðrar þjóðir, enda verðlag á Íslandi almennt hátt.
Mjólkuriðnaðurinn er nú að sameinast að mestu í einu fyrirtæki. Þannig er hægt að auka verkaskiptingu og sérhæfingu í vinnslu mjólkur, og má fullyrða að þessi sameining er ein meginforsenda þess að mjólkurvörur lækka í verði að raungildi. Það er mat Landssambands kúabænda að meðalkúabúið tapi um 300.000.- kr á því að fá ekki hækkun á mjólkurverði eins og þörf hefði verið á. Á móti kemur að tollar á mjólkurvörum verða óbreyttir.
Nú skiptir mestu máli að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvernig hægt er að lækka framleiðslukostnað mjólkur, því hún verður því aðeins framleidd á Íslandi ef sú starfsemi skilar launum sem bændur sætta sig við. Ef mjólkurverðið lækkar hraðar er en framleiðslukostnaðurinn, þá hrynur atvinnugreinin.
En þótt umræðan sé á köflum ósanngjörn og villandi, þá viljum við vonandi öll að íslendingar framtíðarinnar hafi aðgang að íslenskum mjólkurvörum og þá þarf að hafa mjólkurframleiðslu í landinu. Hvað skiptir þá mestu máli næstu árin ?
Annars vegar eru það almenn rekstrarleg atriði á borð við það að kúabúin geti haldið áfram að stækka, flutt verði inn nýtt kúakyn sem skilar meiri afurðum og sparar vinnu, og lækka kostnað við fóðuröflun. Þá er það mikið hagsmunamál að ríkið leggi af skattheimtu á innfluttar kjarnfóðurblöndur. Ekki má heldur gleyma því að vextir á Íslandi eru mjög háir og það kemur þungt niður á atvinnugrein eins og mjólkurframleiðslu vegna mikilla fjárfestinga.
Hins vegar að greinin njóti áfram þeirra verndartolla sem hún gerir nú, enda er sú tollvernd fyllilega sambærilega við þá vernd sem íslenskt verkafólk býr við þar sem erlendu fólki sem kemur inn á íslenskan vinnumarkað. Því verkafólki er óheimilt að vinna á lægri töxtum en hér gilda og við getum eflaust verið sammála um mikilvægi þess skipulags.
Að lokum skal minnt á nauðsyn þess að aðgerðir til lækkunar matvælaverðs skili sér til neytenda en hverfi ekki í verðhækkanir. Þarna þarf að vera vel á verði.
Gleðilegt ár !
Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. janúar 2007