
Mjólkuruppgjör í skoðun og aðalfundur framundan
13.03.2021
Þann 22. febrúar sl. var mjólkuruppgjör fyrir árið 2020 gert upp. Hafði landbúnaðarráðherra áður tilkynnt að ákveðið hefði verið að nýta 32. gr. búvörulaga um tímabundna röskun á framleiðsluskilyrðum vegna náttúruhamfara, m.a. vegna óvenjulegs veðurfars sem varð í desember 2019. Var sú ákvörðun tekin í framhaldi af erindi frá Bjargráðasjóði um málið haustið 2020, sem byggðist á tillögu frá LK, sem framkvæmdanefnd búvörusamninga gerði ekki athugasemdir við. Mjólkurframleiðendur sem urðu fyrir afurðatjóni vegna óveðursins í desember 2019 gátu þannig sótt um undanþágu frá 100% framleiðsluskyldu á árinu 2020 til að fá óskertar beingreiðslur út á greiðslumark.
Þegar uppgjör lá fyrir var ljóst að undanþága þessara bænda frá framleiðsluskyldunni var að hafa áhrif á uppgjör frá afurðastöð en ekki einungis beingreiðsluhlutann. Það er, litið var á það magn mjólkur sem vantaði upp í greiðslumark viðkomandi bænda sem nýtingu rétt eins og um heimavinnslu væri að ræða.
Þegar framleiðsluskylda er lægri en 100% hafa bændur fengið greiddar fullar beingreiðslur út á greiðslumark ef þeir ná framleiðsluskyldu hvers árs. Það sem vantar svo uppá í framleiðslunni til að fylla heildargreiðslumark ársins fer til útjöfnunar á þá sem framleiddu umfram greiðslumark þegar greiðslur frá afurðastöð eru gerðar upp. Það er því ekki litið á það magn sem vantar uppí greiðslumarkseign sem nýtingu á greiðslumarki. Hefur það því ekki haft áhrif á mjólkuruppgjör frá afurðastöð heldur einungis beingreiðsluhlutann.
Stjórn LK sendi erindi á atvinnuvegaráðuneytið vegna málsins þann 26. febrúar sl. þar sem óskað var eftir að ráðstöfun þessi verði endurskoðuð, ellegar skýringum og rökstuðningi á því hvers vegna önnur reikniaðferð er notuð nú en þegar um lægri framleiðsluskyldu er að ræða. Var von á svari fyrir þessa helgi en það náðist ekki og gerum við ráð fyrir að það berist á mánudag.
Mjólkursamsalan sektuð
Fyrr í þessum mánuði staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar þar sem Mjólkursamsölunni er gert að greiða ríkissjóði 480 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu með því að selja keppinautum sínum hrámjólk á hærra verði en Mjólkursamsalan sjálf og tengdir aðilar þurftu að greiða. Málið hófst árið 2012 og hefur því verið í gangi í rúm 8 ár en hefur nú verið leitt til lykta. Í tilkynningu frá MS kemur fram að fyrirtækið var allan tímann í góðri trú og taldi sig vera að vinna í samræmi við lög.
Frá því málið kom fyrst upp hefur skipulagi og framkvæmd á samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði og sölu á hrámjólk til aðila utan samstarfsins verið breytt, til að mæta þeim athugasemdum og ábendingum sem komið höfðu fram. Dómsniðurstaðan snýr því að afmörkuðum ágreiningi um túlkun laga í liðnum tíma, en hefur ekki bein áhrif á starfsemina í dag.
Í viðtali við Pálma Vilhjálmsson, forstjóra MS, kom einnig fram að sektin var greidd árið 2018 þegar dómur héraðsdóms var kveðinn upp og hefur því ekki áhrif á rekstur félagsins í dag en skerði þó vissulega eignir þess. Tekur hann einnig fram að sektargreiðslan muni hvorki leiða til hækkunar á verði mjólkurvara til neytenda né lækkunar á greiðslum til bænda fyrir innlagða mjólk.
Félagskerfi bænda
Senn líður að Búnaðarþingi en það verður haldið 22.-23. mars nk. Þar verður félagskerfi bænda stærsta málið og verði breytingar samþykktar þar fer málið fyrir aðalfundi aðildarfélaga BÍ. Aðalfundur LK verður haldinn dagana 9.-10. apríl nk. á Hótel Sögu, með fyrirvara um breytingar á samkomutakmörkunum vegna Covid-19. Í ljósi aðstæðna verður ekki haldin árshátíð að sinni og fagþing nautgriparæktarinnar verður í formi rafrænna funda sem kynnt verður betur síðar. Helst af öllu viljum við fara að hittast og eiga góðar stundir saman en því miður verður svona að vera þar til aðstæður verða betri í samfélaginu.
Aðalfundir aðildarfélaga eru í fullum gangi þessa dagana og höfum við framkvæmdastjóri LK mætt á þá flesta með erindi og þar eru umræður hvað mestar um breytingar á félagskerfi bænda. Mestu máli skiptir að við sameiningu verði hagsmunagæsla fyrir greinina og landbúnaðinn í heild öflugri, markvissari og hagkvæmari, öllum til heilla.
Stjórn LK telur réttast að leggja ekki niður samtökin en að þau verði hins vegar óvirkt félag. Það þýðir að núverandi sjóðir LK yrðu áfram á kennitölu LK og myndi stjórn deildar kúabænda þá hafa fullt forræði yfir þeim fjármunum. Stjórn deildarinnar yrði skipuð 5 manns, formanni og 4 meðstjórnendum sem kosnir yrðu á búgreinaþingi ár hvert, líkt og kosið er í stjórn LK á aðalfundum ár hvert í dag. Fulltrúar inná búgreinaþing yrðu kosnir í gegnum ákveðna svæðaskiptingu landsins til að tryggja landfræðilega dreifingu og svo yrðu búnaðarþingsfulltrúar deildar kúabænda kosnir á búgreinaþinginu, líkt og búnaðarþingsfulltrúar LK eru kosnir á aðalfundi í dag.
Sameining búgreinafélaga við Bændasamtök Íslands fela í sér ýmsar breytingar og við munum kynna betur áherslur LK fyrir félagsmönnum á næstu dögum og vikum.
Ritað á Egilsstöðum 13. mars 2021
Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður Landssambands kúabænda