Beint í efni

Mjólkuruppgjör 2020 verður leiðrétt

30.03.2021

Mjólkuruppgjör ársins 2020 verður leiðrétt og munu tæplega 600 þúsund lítrar mjólkur koma til útjöfnunar til viðbótar við fyrra uppgjör. Að sama skapi mun útflutningsskylda iðnaðarins lækka um sem því nemur.

Greitt út í apríl

Þegar uppgjör ársins 2020 lá fyrir í lok febrúar gerði Landssamband kúabænda alvarlegar athugasemdir við framkvæmd þess og óskaði eftir leiðréttingu hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem ekki væri st0ð í lögum fyrir framkvæmdinni með þeim hætti sem hún var. Nú hefur ráðuneytið sent leiðrétt uppgjör á afurðastöðvar og verður leiðrétting greidd út til bænda í apríl mánuði.

Undanþága frá framleiðsluskyldu átti ekki að hafa áhrif á uppgjör frá afurðastöð

Baksaga málsins er sú að í upphafi árs var tilkynnt að landbúnaðarráðherra hafi ákveðið að nýta heimild 32. gr. búvörulaga um tímabundna röskun á framleiðsluskilyrðum vegna náttúruhamfara, m.a. vegna óvenjulegs veðurfars sem varð í desember 2019. Var sú ákvörðun tekin í framhaldi af erindi frá Bjargráðasjóði um málið haustið 2020, sem byggðist á tillögu frá LK, sem framkvæmdanefnd búvörusamninga gerði ekki athugasemdir við. Mjólkurframleiðendur sem urðu fyrir afurðatjóni vegna óveðursins í desember 2019 gátu þannig sótt um undanþágu frá 100% framleiðsluskyldu á árinu 2020 til að fá óskertar beingreiðslur út á greiðslumark.

Í stað þess að sú ráðstöfun væri einungis bundin við úthlutun beingreiðslna frá ríkinu, líkt og kveðið er á um í lögum og reglugerðum, var umrætt magn mjólkur skráð sem nýting á greiðslumarki, þrátt fyrir að hafa aldrei verið framleitt og aldrei skilað inn til afurðastöðvar. Sú túlkun gerði það að verkum að undanþágan frá framleiðsluskyldu hafði einnig áhrif á uppgjör frá afurðastöð til bænda sem og útflutningsskyldu iðnaðarins.

Miklir fjárhagslegir hagsmunir undir

Upphæð beingreiðslna árið 2020 vegna umrædds magns er rúmlega 8,5 milljónir króna. Hins vegar þegar magnið var skráð sem nýting á greiðslumarki og þar með dregið frá því greiðslumarki sem er til útjöfnunar í mjólkuruppgjöri nam tap bænda sem fá útjöfnun greidda 46 milljónum króna.

Í svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til LK tekur ráðuneytið undir þá túlkun LK um að undanþágan frá 100% framleiðsluskyldu ætti einungis að hafa áhrif á uppgjör beingreiðslna en ekki uppgjör frá afurðastöðvum. Þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með útreikninga á uppgjöri til bænda þurfti ráðuneytið því að senda leiðrétt uppgjör til afurðastöðva. Hefur það nú verið gert og verður leiðrétting greidd út til viðkomandi bænda í aprílmánuði, líkt og kemur fram hér að ofan.