Beint í efni

Mjólkurþykkni getur sparað flutningskostnað

01.02.2013

Í dag fer stór hluti þeirrar mjólkur sem framleidd er í Evrópu til osta- eða duftframleiðslu og við þá framleiðslu er þurrefni mjólkurinnar það sem unnið er með. Lang stærsti hluti mjólkurinnar er hins vegar vatn og það þarf að skilja frá við framleiðsluna og því má í raun segja að flutningur á þessum hluta mjólkurinnar frá kúabúinu að afurðastöðinni sé óþarfur.

 

Vegna þessa vinna nú vísindamenn að því að þróa búnað, sem hægt væri að koma upp á stærri kúabúm, sem einfaldlega býr til mjólkurþykkni á staðnum og skilur frá mestan hluta vatnsins áður en mjólkin er send til afurðastöðvarinnar.

 

Þessi aðferð er mikið notuð í framleiðslu á ávaxtadrykkjum, þar sem m.a. appelsínu- og eplaþykkni er flutt heimshornana á milli með mun minni kostnaði en ef safarnir væru í upprunamynd sinni. Þessi aðferð við framleiðslu á mjólkurþykkni er þó enn á tilraunastigi, en unnið er að þróun tækjabúnaðarins hjá Háskólanum í Árósum í Danmörku.

 

Hugmyndir vísindamannanna ganga jafnframt út á það að endurvinna vatnið og nýta í fóður kúnna og til þrifa. Þessu þróunarverkefni líkur um áramótin 2015/2016 og standa vonir manna til þess að þá verði tilbúinn nothæfur búnaður fyrir kúabú með daglega framleiðslu sem nemur 13-14 þúsund lítrum af mjólk/SS.