
Mjólkursýnin munu gefa fleiri upplýsingar í framtíðinni
27.03.2017
Belgískir vísindamenn birtu á síðasta ári í tímaritinu Journal of Dairy Science álit sitt á framtíðarmöguleikum í greiningum á mjólkursýnum og í niðurstöðum þeirra er margt afar áhugavert. Þó að nokkuð misjafnt sé á milli landa hve mikið af upplýsingum kúabændum stendur til boða um þau mjólkursýni sem eru send inn, þá fá nú líklega flestir upplýsingar um frumutölu, líftölu, prótein og fitu. Þá koma til viðbótar í sumum löndum gerðar mælingar á sýnunum sem gefa upplýsingar um úrefni, frjálsar fitusýrur, mjólkursykur, BHB og fitusýrusamsetningu mjólkurinnar.
Í náinni framtíð spá Belgarnir því að bændum muni standa til boða að fá upplýsingar um steinefnainnihald mjólkurinnar sem og gæðum hennar til ostagerðar. Þá séu væntanlegar greiningaraðferðir sem greina betur hormóna og ensím í mjólkinni, sem getur gefið áhugaverðar upplýsingar um heilsufar kúnna. Þá eru gæði PCR greininga alltaf að aukast og er stutt í það að hægt verði að greina smitbera júgurbólgu eins og t.d. Staf. Aureus í ólíka undirhópa eftir því hvernig erfðaefni bakteríanna er. Í hvaða átt greiningartæknin þróast fer mikið til eftir eftirspurninnni á hverjum tíma og verður afar fróðlegt að fylgjast með því hvað verður boðið upp á í þessum efnum.